Landsamband hestamanna Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH

  • 12. nóvember 2025
  • Sjónvarp Fréttir

Á Uppskeruhátíð LH 2025 var þeim Guðna Halldórssyni og Kristini Skúlasyni veitt Gullmerki LH. Þeir félagar hafa unnið ötullega að framgangi hestamennskunnar á Íslandi markað spor í starfsemi LH og afreksmála í hestaíþróttum.

Landssamband hestamannafélaga þakkar þeim Guðna og Kristni fyrir sitt óeigingjarna starf og óska þeim til hamingju með gullmerkið.

 

Guðni Halldórsson fyrrv. formaður LH

Guðni Halldórsson hefur alla tíð verið öflugur og metnaðarfullur málsvari hestamennsku á Íslandi. Hann er alinn upp á Mýrum í Borgarfirði og hóf snemma þátttöku í félagsmálum. Á yngri árum sat hann í mótanefnd Faxa og í dómaranefnd HÍDÍ. Árið 2017, eftir nokkurt hlé frá félagsmálum, tók Guðni sæti í landsliðsnefnd LH fyrir hönd Félags hrossabænda og gegndi þar lykilhlutverki í uppbyggingu og faglegri stefnumótun afreksstarfsins.

Á árunum 2020 – 2024 gegndi Guðni starfi formanns Landssambandsins og leiddi samtökin af heilindum og festu. Hann vann ötullega að fjölbreyttum málum á borð við hestavelferð, öryggismál, afreksmál, samvinnu við stjórnvöld og alþjóðasamstarf. Guðni Halldórsson er jarðbundinn leiðtogi sem vinnur af einlægni og eldmóði. Hann er lausnamiðaður og traustur og hefur lagt mikið af mörkum til íslenskrar hestamennsku.

Guðni Halldórsson er vel að gullmerki LH kominn.

 

Kristinn Skúlason fyrrv. formaður landsliðsnefndar LH

Kristinn Skúlason hefur verið ómetanlegur kraftur í mótahaldi og afreksstarfi innan LH.

Árið 2010 stofnaði hann Gullmótið ásamt góðum félögum í Fáki. Gullmótið hafði það að markmiði að efla reiðfærni, reiðmennsku og samhæfingu. Mótið setti ný viðmið í umgjörð og verðlaunum og vakti mikla athygli fyrir gott skipulag og utanumhald. Kristinn gegndi starfi sem formaður Meistaradeildarinnar á árunum 2011 – 2015 og leiddi þar inn margar nýjungar sem settu keppnina á enn hærri stall. Beinar útsendingar, fagleg dómgæsla, sterkir samstarfsaðilar og margt fleira gerðu það að verkum að deildin blómstraði undir hans stjórn.

Á árunum 2017 – 2025 gegndi Kristinn Skúlason starfi formanns landsliðsnefndar. Þar lagði hann mikla áherslu á fagmennsku, samstöðu og virðingu fyrir hestamennsku sem íþrótt. Kristinn Skúlason er lausnamiðaður, áreiðanlegur og óþreytandi í starfi. Hann hefur lagt hjarta og sál í allt sem hann tekur sér fyrir hendur og á stóran þátt í að efla og lyfta íslenskri hestamennsku á hærra plan.

Kristinn Skúlason er sæmdur gullmerki LH

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar