Vilja sjá breytta dagsetningu á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna
Gæðingadómarafélag LH hefur sent Landssambandi hestamannafélaga eftirfarandi ályktun þar sem beðið er um að LH endurskoði dagsetningu Íslandsmóts fullorðinna og ungmenna í hestaíþróttum. Hér fyrir neðan er hægt að lesa ályktunina.
Aðalfundur Gæðingadómarafélags Landsambands hestamannafélaga beinir eftirfarandi ályktun til Landssambands hestamannafélaga til að endurskoða dagsetningu Íslandsmóts fullorðinna og ungmenna í hestaíþróttum sem fram á að fara 17. – 21. júní 2026 á félagssvæði hestamannafélagsins Sörla.
Samkvæmt núverandi mótaskrá LH fyrir árið 2026 fer Íslandsmótið fram dagana 17.–21. júní, tveimur vikum áður en Landsmót hestamanna hefst á Hólum í Hjaltadal 5.–11. júlí.
Þá bendir GDLH á að úrtökur hestamannafélaganna í landinu fyrir Landsmót standa flestar yfir frá miðjum maí og fram í júní, samhliða fjölda íþrótta- og gæðingamóta auk kynbótasýninga um land allt. GDLH telur að svo þétt skipulag skapi óhóflegt álag, fyrst og síðast á hestana, knapana og aðstandendur og dragi jafnvel úr möguleikum hestanna og knapanna til að taka þátt á stærstu mótum ársins.
Þá vill GDLH beina þeim tilmælum til Landssambands hestamannafélaga að mótadagskrá næstu ára verði skipulögð með þeim hætti að hestamannaféögin í landinu geti gengið að dagssetningum stórmóta vísum ár hvert og að skipulag sé með þeim hætti að það sé fyrst og fremst hestvænt, þar sem velferð og raunhæfur undirbúningstími hestsins sé hafður í fyrirrúmi.
GDLH óskar eftir því að stjórn Landssambands hestamannafélaga taki erindi okkar til greina og breyti dagssetningu á Íslandsmóti í hestaíþróttum sem fram á að fara í Hafnarfirði 2026.
Virðingarfyllst,
Stjórn Gæðingadómarafélags Landssambands hestamannafélaga (GDLH)
Þessi ályktun var samþykkt samhljóða.
Vilja sjá breytta dagsetningu á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna
Fagþing hrossaræktarinnar
Fáksfélagar heiðraðir á uppskeruhátíð félagsins