Alvarlegt EHV-1 hópsmit í Bandaríkjunum
Fréttir af útbreiðslu sjúkdóma í hestum erlendis er áminning til þeirra sem ferðast til og frá Íslandi um að gæta fyllstu varúðar
Alvarlegt hópsmit af hestaherpes veiru týpu-1 (EHV-1) hefur verið staðfest í Bandaríkjunum. Smitið má rekja til Heimsmeistaramótsins í tunnukappreiðum (e.World Championship Barrel Racing Finals) sem fram fór í Waco í Texas fyrstu helgina í nóvember. Þar voru fjölmargir hestar útsettir fyrir EHV-1 og síðan hafa tilfelli greinst víðar í Bandaríkjunum m.a. í Oklahoma og Lousiana og fjölda viðburða verið felldir niður.
Veiran dreifist auðveldlega milli hesta og getur borist með búnaði, fatnaði og jafnvel skóm. Bandarísk dýralæknayfirvöld hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða, þar á meðal einangrunar hesta sem voru á viðburðinun sem áður segir frá og hertum sóttvörnum. Nánar segir frá útbreiðslunni og aðgerðum á vefsíðu Bandaríska hestsaráðsins (e. American horse council).
í frétt á vef MAST sem sagði frá útbreiðslu á EHV-1 í Evrópu fyrir 4 árum segir: „EHV-1 er sérhæfð hestaveira sem veldur ævilöngu smiti í þeim hrossum sem hún berst í. Veiran hefur þróað með sér leiðir til að verjast ónæmiskerfi hrossanna og getur legið í dvala árum saman. Við tilteknar aðstæður, svo sem flutninga og keppni sem felur í sér mikið álag á hrossin, getur sýkingin blossað upp og veiran margfaldast í slímhúð öndunarvegarins. Hrossin taka þá að skilja út veiruna í miklu magni og getur hún hæglega borist 5 metra með útöndunarlofti. Þar sem fjöldi hrossa hefst við í sama loftrými, eins og gerist á stórmótum þar sem hross eru haldin í stórum tjaldhesthúsum, skapast mikil hætta á að veiran magnist upp. Við svo mikið smitálag virðist ekki vörn í bólusetningu og mikil hætta á að hrossin veikist.
Fyrstu einkennin eru hiti og kvef. Veiran berst með hvítfrumum í blóðið og í alvarlegustu tilfellum þaðan í miðtaugakerfið, heila og mænu. Þau verða þá óstöðug, fyrst á afturfótum, uns þau lamast og leggjast fyrir.“
Fréttir sem þessar eru stöðug áminning til fólks sem ferðast til og frá Íslandi og sérstaklega þá sem eru í námunda við önnu hestakyn eða aðrar dýrategundir að gætu fyllstu varúðar. Heilbrigðisstaða íslenska hestsins er einstök og hana þarf að varðveita með öllum tiltækum ráðum.
Matvælastofnun og Horses of Iceland gáfu út reglur um smitvarnir við komu hestamanna til landsins fyrir tveimur árum. Reglurnar eru aðgengilegar á www.mast.is (hér á .pdf formi og hér á .png formi) og www.horsesoficeland.is.
Skagfirðingur hlýtur æskulýðsbikar LH 2025
Norðmenn verðlaunuðu sitt fólk á haustráðstefnu