„Setja allt sýningar- og keppnishald vorsins í óþarfa spennitreyju“
Mynd: Freydís Bergsdóttir
Fagráð í hrossarækt og stjórn deildar hrossabænda hefur sent frá sér ályktun varðandi dagsetningu Íslandsmóts fullorðinna og ungmenna. Þar tekur fagráð og stjórn deildar hrossabænda undir orð Félags tamningamanna og skorar á stjórn LH að endurskoða þessa ákvörðun.
Ályktunina er hægt að lesa hér fyrir neðan
„Íslandsmót fullorðinna og ungmenna í hestaíþróttum er nú dagsett 17. – 21. júní á næsta ári. Fagráð í hrossarækt vill beina þeim tilmælum til stjórnar Landssambands hestamannafélaga að endurskoða þessa dagsetningu. Í þessari viku vorsins er verið að sýna fleiri hundruð hross í kynbótadómi og fólk að stefna á Landsmót með bestu kynbótahross landsins. Sýningaráætlun fyrir kynbótahross er með afar líku sniði ár eftir ár en á þessum tíma eru síðustu kynbótasýningar fyrir Landsmót. Mikið annríki er í sýningum hrossa á þessum tíma eins og verið hefur undanfarin ár, með kynbótasýningum, úrtökum í gæðingakeppni ásamt íþróttaviðburðum. Fagráði finnst að verið sé að setja allt sýningar- og keppnishald vorsins í óþarfa spennitreyju með því að bæta Íslandsmóti við dagskrá sem er afar þétt fyrir. Þetta skapar hættu á fullmiklu og óþarfa álagi á hross, sýnendur hrossa og starfsfólk sýninganna. Fyrirhugaðir viðburðir næsta vors geta liðið fyrir þessa ákvörðun og þá ekki síst fyrrnefnt Íslandsmót. Það eru því góðfúsleg tilmæli frá Fagráði til stjórnar Landssambandsins að endurskoða þessa ákvörðun.“
F.h. fagráðs í hrossarækt og stjórnar deildar hrossabænda,
Nanna Jónsdóttir
„Setja allt sýningar- og keppnishald vorsins í óþarfa spennitreyju“
Skagfirðingur hlýtur æskulýðsbikar LH 2025