Þriggja hesta kapphlaup eða óvæntur sigurvegari?
Mikil eftirvænting ríkir á meðal hestamanna ár hvert er Meistaradeild Líflands hefur göngu sína. Það má því búast við fullu húsi í HorseDay höllinni á Ingólfshvoli á morgun og þúsundum manna fyrir framan sjónvarpsskjáinn að fylgjast með í beinni á EiðfaxaTV.
Fyrsta keppnisgreinin er fjórgangur og nú ætlum við að velta fyrir okkur hvaða pör eru líklegust til að blanda sér í baráttuna um að vinna þessa grein. Á ráslistanum er að finna bæði reynd pör og ný. Það er því ekki alltaf auðvelt að spá fyrir um hverjir skara fram úr og þar spilar einnig inn í hvar í þjálfunar uppbyggingu vetrarins hestarnir eru staddir.
Þrjú pör berjast um sigurinn
En ef allt fer eins og það á að fara verður að teljast ansi líklegt að það verði þrjú pör sem berjist um sigurinn en það eru Jakob Svavar Sigurðsson á Skarpi frá Kýrholti, Ásmundur Ernir Snorrason á Hlökk frá Strandarhöfði og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir á Flóvent frá Breiðstöðum.
Því til rökstuðnings má nefna að Jakob Svavar og Skarpur unnu þessa grein í Meistaradeildinni árið 2024 og eru eitt sterkasta keppnispar dagsins í dag og hafa hlotið háar einkunnir í fjórgangi. Ásmundur Ernir og Hlökk eru svo ríkjandi Íslandsmeistarar í fjórgangi og voru í flugagír á síðasta ári. Aðalheiður Anna og Flóvent hafa tvisvar sinnum á síðustu þremur árum unnið fjórgang í Meistaradeildinni bæði 2025 og 2023.

Eyrún Ýr er ríkjandi meistari Meistaradeildarinnar og til alls líkleg á þessu keppnistímabili
Til alls líkleg
Ef að eitthvað klikkar hjá þessum knöpum þá er öruggt að aðrir knapar verða fljótir að skerast í leikinn og þar eru Eyrún Ýr og Drangur frá Steinnesi til alls líkleg. Þau vöktu verðskuldaða athygli á síðasta keppnistímabili og Eyrún Ýr er ríkjandi sigurvegari í einstaklingskeppni Meistaradeildarinnar. Þá hafa þau Guðmunda Ellen og Flaumur frá Fákshólum sýnt það að þau eru engir aukvissar m.a. með Íslandsmeistaratitli í fjórgangi árið 2024.
Svo er ekki loku fyrir það skotið af einhverjir af hinum knöpunum komi á óvart og standi uppi sem sigurvegarar því að á ráslistanum er einungis að finna frábæra knapa og hesta og því spennandi að fylgjast með fjórgangnum sem hefst annað kvöld klukkan 19:00 í beinni útsendingu á EiðfaxaTV.

Guðmunda Ellen hefur sýnt það að hún og Flaumur eru engin lömb að leika sér við
Þriggja hesta kapphlaup eða óvæntur sigurvegari?
Til minningar um Ragnheiði Hrund