Háskólinn á Hólum Fulbright-styrkþegi kemur að uppbyggingu nýrrar námslínu á Hólum

  • 26. janúar 2026
  • Fréttir

Ljósmynd: Vefsíða Hólaskóla

Á vef Hólaskóla kemur það fram að Dr. Erika Berg, dósent við North Dakota State University, hafi gengið til liðs við hestafræðideild skólans sem Fulbright-styrkþegi. Hún mun starfa við deildina fram í júní n.k.

Koma Eriku er mikilvægur liður í uppbyggingu skólans en hún mun vinna náið með þeim Sveini Ragnarssyni, prófessor, og Henri Julius, tengdum prófessor, að þróun nýrrar akademískrar námskrár á sviði dýratengdrar þjónustu (Animal Assisted Services). Um er að ræða vaxandi fræðasvið sem snýr meðal annars að hestatengdri fræðslu og meðferðarstarfi sem styður við líkamlega og andlega vellíðan.

Mæta vaxandi þörf

Hestatengd meðferð hefur verið stunduð á Íslandi um nokkurt skeið en vaxandi þörf er fyrir viðurkennt háskólanám á þessu sviði. Hlutverk Eriku verður að hanna námsleið sem uppfyllir alþjóðleg viðmið og byggir á bestu starfsháttum frá Bandaríkjunum og Norðurlöndum.

Erika býr að yfir 30 ára reynslu af því að tengja saman hesta og fólk. Í heimaháskóla sínum veitir hún forstöðu verkefninu Bison Strides, sem þjónar einstaklingum með ýmsar áskoranir, auk þess að hafa umsjón með námsleið til vottunar í faginu.

Auk námskrárgerðarinnar mun Erika kenna valnámskeið á Hólum og leiðbeina nemendum við rannsóknir. Hólaskóli horfir til þess að dvöl hennar geti orðið grunnur að öflugu framtíðarsamstarfi og rannsóknum milli landanna á þessu sviði.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar