FEIF Fulltrúaþing og nefndarfundir FEIF framundan um næstu helgi

  • 27. janúar 2026
  • Fréttir
Stiklað á stóru yfir þær helstu tillögur sem fulltrúar aðildarlanda FEIF munu ræða og kjósa um.

Fulltrúaþing og nefndarfundir FEIF fara fram í Búdapest í Ungverjalandi um helgina, dagana 30. janúar til 1. febrúar. Hér er stiklað á stóru yfir þær helstu tillögur sem fulltrúar aðildarlanda FEIF munu ræða og kjósa um.

Norðurlöndin (Ísland, Finnland, Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Færeyjar) hafa sameinað krafta sína og standa að nokkrum veigamiklum tillögum í ár:

  • Gæðingakeppni í regluverk FEIF: Lagt er til að FEIF hefji formlega vinnu við að innleiða reglur Gæðingakeppninnar í lög og reglur sambandsins. Markmiðið er að tryggja samræmi og festa sess greinarinnar á alþjóðavísu, með það fyrir augum að fullbúin tillaga liggi fyrir árið 2027 .
  • Lyfjaeftirlit með knöpum: Norðurlöndin benda á alvarlega gloppu í regluverki FEIF, en engar reglur eru til um lyfjaeftirlit fyrir menn (knapa og starfsmenn), ólíkt því sem tíðkast í flestum öðrum íþróttum. Lagt er til að FEIF hefji vinnu við að setja slíkar reglur í samræmi við alþjóðlega staðla.
  • Val um staðsetningu HM: Gerð er krafa um að FEIF setji ríkari skilyrði við val á mótshöldurum HM. Sérstaklega er horft til þess að forðast framkvæmdir þar sem mannvirki eru reist frá grunni og rifin strax að móti loknu. Þess í stað verði horft til svæða þar sem aðstaðan nýtist til framtíðar .

Breytingar á keppnisreglum

  • Höfuðhneiging heyri sögunni til: Lagt er til að fella niður regluna um að knapi þurfi að heilsa dómurum með höfuðhneigingu til að hefja sýningu. Talið er augljóst hvenær sýning hefst og athöfnin því óþörf.
  • Hvíldartími í skeiðgreinum: Í P1, P2 og P3 er lagt til að lágmark 20 mínútur verði að líða á milli spretta hjá sama hesti til að tryggja velferð og endurheimt. Einnig er mælt með að hvíldin fari ekki yfir 40 mínútur svo hesturinn kólni ekki, en tillagan byggir á rannsóknum Dr. Michael Weishaupt
  • Banna písk í flugskeiði: Sviss leggur til að notkun písks verði bönnuð í P2 (100 metra skeiði). Rökstuðningurinn er sá að tíminn einn gildi í greininni, líkt og í 250m og 150m skeiði, og því eigi sömu reglur að gilda í öllum skeiðgreinum þar sem keppt er um tíma .

Breytingar er tengjast reglum á kynbótastarfi.

  • Náttúrulegar fyljanir fyrir sæðingar: Lagt er til að stóðhestar megi ekki vera notaðir til sæðinga fyrr en þeir hafa sannað getu sína til fyljana við náttúrulegar aðstæður. Með þessu á að koma í veg fyrir að eingöngu tæknifrjóvgun sé notuð, sem gæti falið möguleg frjósemis- eða hegðunarvandamál
  • Endurmenntun kynbótdómara: Skýrari kröfur til handa starfandi kynbótadómurum. Til þess að halda réttindum þarf dómari að dæma að lágmarki 400 hross á fjórum árum auk þeass að taka þátt í reglulegum æfingum yfir vetrartímann, þar sem horft er til frammistöðu þeirra.
  • Nýliðun dómara: Inntökuferlið verður opnað þannig að ekki séu settar skorður á frá hvaða landi dómaraefni koma. Áður þurftu aðildarlönd FEIF að tilnefna fulltrúa.
  • Valfrjálsir sköpulagsdómar. Lagt er til að það verði valfrjálst hvort mæta skuli með hross til sköpulagsdóms aftur eftir fimm vetra aldur. Jafnframt gerir sama tillaga það að verkum að hestar þurfi ekki að mæta til sköpulagsdóms og reiðdóms á sömu sýningu. Tilgangurinn með þessari tillögu sé að auka sveigjanleika og á sama tíma tilraun til að minnka kostnað hross eigenda.

 

Eiðfaxi mun fylgjast með því hvaða breytingar á regluverki FEIF ná í gegn og flytja af því fréttir þegar þær berast.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar