Hestvagninn frjáls ferða sinna

Hestvagn Bettinu Wunsch verður dreginn áfram með hefðbundnum hætti í Jólaþorpinu í Hafnarfirði, að undanskildum deginum í dag. Þetta segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, í samtali við mbl.is. Bærinn hefur ekki hugsað sér að skera niður ferðir vagnsins.
„Það er engin ákvörðun sem liggur fyrir annað en það að það komu mjög alvarlegar athugasemdir frá eigendum [Vegan]búðarinnar um þetta. Starfsmenn bæjarins ræddu við eigendur verslunarinnar og aðilann sem sér um hestaferðirnar og það varð að samkomulagi að hefja ferðirnar í dag seinna en vanalega,“ segir Rósa.
„Svo ætlum við að halda okkar striki með þetta það sem eftir lifir Jólaþorpsins enda er þetta feikivinsælt í Jólaþorpinu okkar eins og í flestum jólaþorpum erlendis.“
Meira má lesa um málið á vef Morgunblaðsins www.mbl.is