„Hættu nú að vígja Guðmundur góði…

  • 28. mars 2020
  • Fréttir

Því einhvers staðar verða vondir að vera“ segir í sögunni af því þegar Guðmundi biskupi hinum góða var falið að vígja bergið í Drangey til að draga úr tíðum slysum sem þar urðu við eggjatöku og annað. En það var tröll eitt sem reyndi að skera kaðal þann sem biskupinn hékk í utan í berginu en tókst ekki þar sem biskupinn hafði vígt einn þáttinn í kaðlinum.

Lokanir reiðhalla

Óneitanlega datt manni þessi saga í hug þegar fregnir bárust af því að farið væri að loka reiðhöllum landsins hverri af annarri að því er talið var samkvæmt tilskipun frá sóttvarnarnefnd. Þessar aðgerðir hafa vakið all nokkra athygli meðal hestamanna og sýnist sitt hverjum. Tilefnið að þessum gjörningum má rekja til tilmæla frá ÍSÍ að því er kemur fram í pistli frá formanni Landssambands hestamannafélaga og má ætla að menn hafi tekið hlutina full bókstaflega því í lok pistilsins segir:

„Í þessum ólgusjó hefur samstaða Íslendinga verið til fyrirmyndar. Landssamband hestamannafélaga er hluti af ÍSÍ sem leggur mikla áherslu á að fara eftir fyrirmælum fagfólksins. Það er því spurning hvort við teljum rétt, og þess virði, að loka ekki reiðhöllunum tímabundið í samræmi við túlkun ÍSÍ.

Við hjá LH erum í góðu sambandi við ÍSÍ varðandi þau verkefni sem snúa að hreyfingunni í þessum ólgusjó.  Við höfum komið okkar tilmælum til ykkar en vissulega er það á ykkar valdi að taka ákvörðunina.“

Þarna er matið og ákvörðunin látin í hendur félaganna um það hvort eigi að loka höllunum meðan baráttan um útbreiðslu veirunnar stendur. Í boði ÍSÍ er talað almennt um íþróttamannvirki og eru reiðhallir hestamannafélaganna óumdeilt inni í þeim pakka. En þá komum við að því sem skiptir öllu máli sem er spurningin um það hvort sé hægt að líkja aðstæðum saman þar sem stundaðar eru boltaíþróttir og aðrar greinar þar sem er um mikla nánd og snertingu að ræða eða hins vegar reiðhöllum þar sem að öllu jöfnu er góð fjarlægð milli iðkenda.

Sem dæmi má nefna að í reiðhöllinni að Varmárbökkum í Mosfellsbæ voru settar ýmsar hömlur á notkun hallarinnar áður en henni var lokað. Til dæmis að einungis skyldu vera að hámarki tíu knapar í einu inn á gólfi hallarinnar. Þá væri aðgangur að áhorfendastæðum ekki leyfður og ef einhverjir þyrftu að bíða eftir aðgangi skyldu viðkomandi bíða utan dyra en ekki í fordyri hallarinnar. Hallargólfið er um 1200 fermetrar og ef tíu knapar og hestar eru inni samtímis hefur hver fyrir sig 120 fermetra þannig að fjarlægð þarf aldrei að vera minna en fimm til tíu metrar. Má líkja því við að hver knapi hafi sem nemur einu litlu einbýlishúsi að flatarmáli til athafna. Vel væri hægt að hafa höllina opna þannig að knapar geti riðið óhindrað inn án þess að þurfa að fara af baki til að opna og loka dyrum. Hingað til hefur mátt telja það til tíðinda að meira en tíu knapar séu inni í höllinni samtímis og því ekki ástæða til að ætla að fleiri fari að hópast þar inn undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja.

Hestamannafélög hafa sótt um undanþágur

Hingað til hefur sóttvarnarnefnd stjórnað ferðinni hvað varðar margvíslegar hömlur til að hefta útbreiðslu þessa ófögnuðar og verður ekki annað séð en þeim hafi tekist það mjög farsællega og fengið þjóðina í lið með sér til almannavarna. Gætt hefur verið hófs í öllum boðum og bönnum sem sett hafa verið og það verið skýr stefna að ganga ekki lengra í þeim efnum en ástæða er til hverju sinni. Hömlur verið auknar eftir því sem þurfa þykir eftir framgangi útbreiðslunnar og aðfinnslur eða mótmæli nánast ekki heyrst. Þá hefur nefndin ekki tekið undir allar kröfur eða óskir um harðari aðgerðir sem telja verður mjög skynsamlegt og affarasælt í samvinnu við heila þjóð. Gera nóg en ekkert umfram það, virðist manni hafa verið mottóið hjá þessari farsælu nefnd.

Í boði ÍSÍ er tekið fram að hægt sé að sækja um undanþágu frá lokunum íþróttamannvirkja og liggja nú þegar nokkrar slíkar fyrir hjá heilbrigðisráðuneytinu frá hestamannafélögum. Telja verður líklegt að þessar umsóknir fái jákvæða umfjöllun og afgreiðslu ef grannt er skoðað hvernig hægt sé að útfæra notkun á þessum reiðhöllum. Stór munur er á smithættu í þeim og öðrum höllum og húsum þar sem stundaðar eru svokallaðar innanhússíþróttir þar sem nálægð er mikil og sameiginlegir snertifletir óteljandi. Ætla má að smithætta sé til að mynda mun minni í reiðhöllum en til dæmis í verslunum sé rétt og vel að málum staðið. Fyrirtæki og þjónustuaðilar hafa flestir hverjir aðlagað sig aðdáunarlega vel að auknum smitvörnum og virðast allir að vilja gerðir að gera sem best í þeim efnum. Af hverju skyldum við hestamenn ekki getað staðið okkar plikt í forvörnum eins og aðrir?

Eitt af því sem ber að forðast er öll taugaveiklun og mikilvægt að ekki sé ofgert í varnaraðgerðum í sótt sem þessari. Spyrja má hvar við endum ef halda á áfram á þessari braut eins og til dæmis með setja á ónauðsynlegar  lokanir á reiðhallir. Verða það reiðvegirnir næst og hvað með golfvellina. Verður næst farið að krefjast lokunar á þeim?

Einnig má benda á að verði reiðhallirnar opnaðar aftur þá fara aðeins þeir inn sem telja sig eiga erindi þangað og telja að þetta sé tryggt og gott umhverfi til að þjálfa sinn hest. Hinir nota reiðvegina og halda góðri fjarlægð milli knapa og hesta þar. Og svo er það hitt að nú er vorið á næsta leiti og eftir því sem veður fer (vonandi) batnandi dregur almennt úr aðsókn að reiðhöllum.

Full ástæða er því til að hvetja viðkomandi aðila að gera viðeigandi ráðstafanir og opna reiðhallir á nýjan leik fyrir þá sem vilja þjálfa hross sín þar.

 

Höfundur: Valdimar Kristinsson   

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar