Enn bætist við gæðingavalið á Ræktunardag Eiðfaxa

Gljátoppur frá Miðhrauni
Það verður nóg til að gleðja augu hestafólks á Ræktunardegi Eiðfaxa næstkomandi laugardag, enda bætist stöðugt í hóp þeirra úrvalshrossa sem þar munu koma fram.
Gljátoppur frá Miðhrauni vakti töluverða athygli fyrir mikið fas og glæsilega framgöngu þegar hann kom fram í fyrra, þá aðeins fjögurra vetra gamall. Hann mætir til leiks á ræktunardaginn undir styrkri stjórn Mána Hilmarssonar og verður spennandi að sjá hvernig þetta ungstirni kemur undan vetri.
Stóðhesturinn Sigur frá Stóra-Vatnsskarði er ekki einasta stórvel ættaður heldur hefur einnig hlotið úrvals kynbótadóm og farið afar vel af stað sem keppnishestur í hringvallargreinum. Sigur og eigandi hans, Vilborg Smáradóttir, ætla að máta sig við öll hin úrvalshrossin sem mæta nk. laugardag.
Atlas frá Hjallanesi er hæst dæmda afkvæmi ofurhestsins Spuna frá Vesturkoti. Þessi litfagri stólpagæðingur hefur hlotið „aðeins“ 8,91 fyrir hæfileika í kynbótadómi og á laugardaginn kemur munu áhorfendur fá að hann sýna sínar bestu hliðar með Teit Árnason í hnakknum.
Sýnt verður beint frá deginum um heim allan hér á eidfaxi.is og verður honum lýst á þremur tungumálum íslensku, þýsku og ensku. Ekki missa af rjómanum af íslenskri ræktun á laugardaginn!