,,Ekki áhættunar virði að halda Íslandsmót“

  • 7. ágúst 2020
  • Fréttir

Það verður ekkert Íslandsmót fullorðinna og ungmenna í ár

Viðtal við Lárus formann LH

Stjórn Landssambands hestamannafélaga sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þess efni að Íslandsmótinu í hestaíþróttum hefði verið aflýst. Stjórnin taldi ekki forsvaranlegt að halda mótið í miðjum heimsfaraldri og hafði samfélagslega ábyrgð í forgrunni við þá ákvörðun.

Blaðamaður Eiðaxa hafði samband við Lárus Ástmar Hannesson, formann LH, og lagði fyrir hann nokkrar spurningar er varðar þá ákvarðanatöku en þær og svör við þeim má lesa hér fyrir neðan.

Kom ekki til greina að fresta Íslandsmóti fram í lok ágúst og sjá hver staðan yrði þá?

„Stjórn LH fór vel yfir málin og greindi stöðuna af ábyrgð eins og við höfum gert með öll þau mál sem komið hafa upp í þessari fordæmalausu stöðu og niðurstaðan var að Íslandsmóti 2020 yrði aflýst.  Íslandsmótið átti að vera haldið um miðjan ágúst í þeirri mynd sem við þekkjum mótin. Ekki var áhugi fyrir að fara aftar inní haustið með mótið.“

Hefði ekki verið hægt að halda mótið með því að fara eftir tillögum sóttvarnaryfirvalda og halda svæðinu hólfaskiptu, knapar og starfsfólk yrðu með grímur o.s.frv.?

„Það er mögulegt að standa fyrir margskonar viðburðum og uppákomum með því að fara eftir ýtrustu kröfum og svo hefði einnig verið með mót af þessu tagi. Við mátum það þannig að það væri ekki áhættunar virði. Til að halda svona mót þarf sjálfboðaliða og starfsfólk auk keppenda og allir þurfa að vera tilbúnir til að fylgja ýtrustu kröfum og taka þá áhættu sem því fylgir.“

Var þetta einhuga ákvörðun stjórnar LH?

„Þessi ákvörðun var einhuga.“

Eitthvað að lokum?

„Heldur betur hefur ræst vel úr þessu hestaári ef við tökum mið af þeirri stöðu sem blasti við í upphafi ársins. Hestamenn á Íslandi hafa notið samvistum við hesta sína í ríkum mæli. Tekist hefur með ágætum að halda mörg stórgóð mót.  Margir hafa farið í hestaferðir og notið lands, vina og hesta.  Þessi staða er sú besta sem gerist í Íslandshestaheiminum og er ég þakklátur fyrir það.

 Í því samhengi sem um ræðir varðandi Covid 19 höfum við í stjórn LH staðið frammi fyrir stórum ákvörðunum. Við mat á þeim ákvörðunum höfum við ávallt sett í fyrsta sæti samfélagslega ábyrgð. Við erum saman á þessum leiðinda vagni hvort sem okkur líkar það betur eða verr.  Við höfum frestað landsmóti, hvatt til lokunar reiðhalla og svo núna tekið þessa ákvörðun.

Ég geri mér grein fyrir að ekki eru allir sammála niðurstöðu stjórnar í þessu máli frekar en hinum enda nálgunin á mismunandi vegu við matið. Við skulum halda áfram að njóta þess að vera hestamenn og takast áfram saman á við þennað vágest sem kemur og fer.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar