Guðni býður sig fram til formanns LH

Yfirlýsing frá Guðna Halldórssyni
Síðustu mánuði hafa nokkrir aðilar sem ég met mikils, komið að máli við mig og skorað á mig að bjóða mig fram til formennsku í landssamtökum okkar hestamanna LH. Ég hef undanfarin ár setið í Landsliðsnefnd LH fyrir hönd Félags hrossabænda og tekið virkan þátt í því frábæra og metnaðarfulla starfi sem fer fram innan nefndarinnar. Þó við höfum náð frábærum árangri í afreksstarfinu og náð í gegn mörgum mjög þörfum breytingum til framfara, þá eigum við enn langt í land og getum gert mun betur á sviði afreksmála. Ég hef brunnið fyrir þessu starfi í Landsliðnefndinni og því tók ég hugmyndum um framboð til formanns LH heldur fálega í fyrstu enda með fullan fókus á því verkefni.
Þegar vinir manns og aðilar sem maður ber virðingu fyrir eins og Kristinn Skúlason formaður lansliðsnefndar, Hákon Hákonarson formaður Harðar en ég er Harðarmaður og Ólafur Flosason formaður Borgfirðings hvetja mann áfram og telja að maður eigi erindi í slíkt embætti er erfitt að hlusta ekki. Í framhaldinu hef ég svo rætt við fjölda annarra sem ég hef mætur á og ber traust til, þ.m.t. formenn margra hestamannafélaga bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni og hvarvetna verið hvattur áfram og fengið mikinn stuðning og hvatningu.
Eftir að hafa hugsað málið vel og rætt við eiginkonu mína og vinnuveitanda og fengið óskoraðan stuðning þaðan, hef ég ákveðið að verða við áskoruninni og bjóða fram krafta mína til formennsku LH á næsta landsþingi.
Telji félagsmenn LH mig hæfan til embættisins mun ég leggja mig fram eins vel og mér er unnt og sinna störfum mínum af heiðarleika og trúmennsku eins og ég hef gert í Landsliðsnefnd og öðrum trúnaðarstörfum hingað til. Telji félagsmenn hins vegar einhvern annan aðila mér hæfari til starfans þá mun ég að sjálfsögðu una því og halda áfram að vinna að framgangi hestamennskunnar í Landsliðsnefnd, enda gríðarlega spennandi tímar framundan þar.
Ég mun þó að sjálfsögðu berjast af fullum krafti fyrir kjöri, fái ég mótframboð.
En hver er Guðni Halldórsson og hvað er hann að vilja upp á dekk?
Þetta er spurning sem vaknar eflaust hjá mörgum við lestur þessarar yfirlýsingar enda er ég hvorki fremsti knapi, dómari, járningamaður, tamningamaður eða hrossaræktandi landsins, langt því frá meira að segja. Ég er bara áhugamaður ofan af Mýrum sem hef stundað mína hestamennsku frá barns aldri og geri enn, nú á Skrauthólum á Kjalarnesi. Ég ríð út mér til ánægju ásamt fjölskyldu minni, ferðast, rækta nokkur hross á ári, tem og á það til að keppa ef þannig liggur á mér, með misjöfnum árangri. Dæmdi dálítið í gamla daga en er fyrst og fremst áhugamaður um hesta og hestamennsku, hverju nafni sem hún nefnist. Ég hef undanfarin 15 ár starfað sem lögfræðingur við fyrirtækjaráðgjöf. Nú hjá Íslenskum Verðbréfum við samningagerð tengda kaupum, sölu og samruna fyrirtækja. Ég hef í þeim störfum mínum komist að því að maður þarf ekki að vera bestur í öllu. Ég er hvorki besti lögfræðingur landsins eða viðskiptafræðingur en ég á hins vegar mjög gott með að nýta mér styrkleika annarra, hlusta eftir skoðunum fólks og sætta ólík sjónarmið. Í samningagerð þarf maður að vera sjálfum sér samkvæmur, tilbúinn til að vera fastur fyrir og bakka þegar það á við. Þá er mikilvægt að viðurkenna að maður veit ekki allt og hefur stundum rangt fyrir sér. Þetta eru að mínu mati eiginleikar sem formaður í stórum félagasamtökum eins og LH þarf að hafa til brunns að bera í ríkum mæli. Þó væri auðvitað kostur ef ég væri t.d. fremsti járningamaður eða knapi landsins líka og kannski verð ég það einn daginn ef ég æfi mig mjög mikið.
Án þess að ég hafi sett mig inn í öll málefni LH þá tel ég samt rétt að nefna nokkur mál sem á mér brenna. Þetta eru auðvitað ekkert ný mál eða „mín mál“ en engu að síður stór mál fyrir okkur hestamenn.
Samstaða
Fátt er okkur hestamönnum mikilvægara en að standa saman sem ein heild. Hestamennskan á í harðri samkeppni við aðrar íþróttagreinar og afþreyingu um tíma og peninga fólks. Það er mikilvægt að við hestamenn séum samstíga og komum fram sem einn hópur hvort sem við stundum hestamennsku á landsbyggðinni eða í þéttbýli og hvort sem við stundum keppnishestamennsku á hæsta stigi, ríðum út okkur til ánægju um helgar, ferðumst á hestum, ræktum hesta, störfum við ferðaþjónustu eða hvað annað. Við höfum öll meira og minna sömu hagsmuni og áhugamálið okkar er það sama, íslenski hesturinn. Ég tel mig vera vel til þess fallinn að sætta ólík sjónarmið hestamanna og mun gera mitt besta til að ná breiðri samstöðu um þau mál sem skipta okkur hestamenn máli.
Nýliðun
Hestamennska er dýrt áhugamál og það er erfitt fyrir krakka (eða fullorðna) sem ekki hafa sterk fjölskyldutengsl inn í hestamennskuna að byrja. Við erum með frábæra reiðskóla sem fyllast af börnum á sumrin, en því miður skila ekki nógu mörg þeirra sér inn í hestamennskuna til framtíðar. Þetta vandamál er auðvitað ekki nýtt af nálinni og LH, í samstarfi við aðildarfélögin hefur hafið metnaðarfullt starf í þágu nýliðunar. Það er afar mikilvægt að halda þessu góða starfi áfram og finna fjármagn til að efla það enn frekar, helst í öllum hestamannafélögum landsins. Þarna liggur framtíð greinarinnar.
Mótahald
Mótahald okkar hestamanna á í harðri samkeppni við aðra afþreyingu um tíma fólks og því miður hefur okkur ekki tekist að draga að jafn marga áhorfendur eins og við öll vildum. Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvort við getum með einhverjum hætti gert mótin skemmtilegri og aðgengilegri fyrir fólk sem er ekki í innsta hring keppnishestamennskunnar. Þarna er verk að vinna sem aðkallandi er að skoða af mikilli alvöru.
Afreksstarf
Eins og áður segir þá hef ég beitt mér af einurð undanfarin ár fyrir framgangi afreksstarfs LH og við í Landsliðsnefnd tekið allt afreksstarfið í gegn með það fyrir augum að auka fagmennsku, metnað og ásýnd afreksstarfsins enn frekar. Liður í þessu er að nú eru starfandi tvö landslið og tveir frábærir landsliðsþjálfarar allt árið, ásamt öflugu fagteymi sem styður við starfið. Þá hefur verið komið á fót hæfileikamótun fyrir aldursflokkinn fyrir neðan U21 árs landsliðið. Þó að stór skref hafi verið tekin og mikið áunnist þá eigum við enn langt í land og ljóst að við eigum að hafa metnað til að ná enn lengra.
Reiðvegamál og aðgengi hestamanna
Fátt er mikilvægara en að við hestamenn, bæði sem einstaklingar, minni hópar og landssamtökin í heild stöndum saman og berjumst fyrir auknu fé til reiðvegamála og bættu aðgengi hestamanna alls staðar þar sem það er möguleiki. Ég er stoltur af því að hafa átt lítinn þátt í því þegar nokkrir hestamenn á Kjalarnesi og í Kjós náðu því í gegn upp á sitt einsdæmi, með eljusemi og dugnaði að gamla þjóðleiðin um Esjuhlíðar og inn í Kjós var opnuð og lagfærð fyrir okkur hestamenn, eftir að hafa verið lokuð í um 40 ár. Svona þurfum við að vinna víðar og ná til baka því sem frá okkur hefur verið tekið, ásamt því að verja það sem við höfum og bæta reiðvegasamgöngur með öllum tiltækum ráðum.
Að lokum
Ég býð mig fram til formanns LH sem einstaklingurinn Guðni Halldórsson. Ég stend og fell með mínum skoðunum og sannfæringu og er engum háður. Þeir sem þekkja störf mín innan Landsliðsnefndar geta staðfest að ég hef starfað þar af heilindum og krafti og ætíð gætt jafnræðis í störfum mínum. Enda lít ég svo á að alltaf þurfi að horfa á heildar hagsmuni okkar hestamanna við alla ákvarðanatöku, en ekki einstakra hagsmunahópa.
Á sama tíma og ég lýsi yfir framboði mínu býð ég þeim hestamönnum, og þá sérstaklega verðandi þingfulltrúum, að hringja í mig í síma 771 6661, vilji þeir ræða frekar um skoðanir mínar eða hvað ég stend fyrir. Eins er ég tilbúinn að taka kaffispjall vilji fólk ræða við mig.
Skrauthólum á Kjalarnesi 19.8.2020
Guðni Halldórsson