Prúðir knapar og fagmannlega riðið

  • 12. febrúar 2021
  • Fréttir

Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Óskar frá Breiðstöðum. Mynd: Meistaradeildin í hestaíþróttum

Keppni í slaktaumatölti í Meistaradeildinni fór fram í gærkvöldi og þótti takast vel. Mikið var af fínum sýningum og á fyrstu tveimur mótum vetursins er ljóst að fagmannleg reiðmennska er í fyrirrúmi, því að eins og í keppni í fjórgangi fyrir tveimur vikum voru knapar prúðir og riðu snyrtilega en þó með fulla orku.

Nú þegar fyrstu tveimur mótunum er lokið er Jakob Svavar Sigurðsson í forystu í einstaklingskeppninni og byrjar því titilvörn sína af krafti en hann er með 18 stig . Skammt á eftir honum koma svo Árni Björn Pálsson og Jóhanna Margrét Snorradóttir með 15 stig. Þessir þrír knapar hafa verið í úrslitum á fyrstu tveimur mótum. Hestvit/Árbakki er í 1.sæti í liðakeppninni með 105 stig og lið Top Reitir í 2.sæti með 92 stig. Ennþá eru þó sex greinar eftir og því mikið af stigum í pottinum.

Aðalheiður í aðalhlutverki
Aðalheiður Anna sigraði í greininni með nokkrum yfirburðum og lét forystu sína sem hún náði í forkeppni aldrei af hendi. Í viðtali við Huldu Geirsdóttur hjá RÚV eftir úrslitin sagði Aðalheiður frá því í beinni útsendingu að hún hefði tekið ákvörðun um að stefna á HM með Óskar. Heimsmeistaramótið í ár er fyrirhugað í Herning í Danmörku dagana 1.-8. águst Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenska landsliðið og nú er bara að krossa putta og vona að HM verði haldið í ár. Það er ljóst að landsliðsþjálfari Íslands, Sigurbjörn Bárðarson, á fyrir höndum vandasamt verk við það að velja landsliðið því flestir af okkar færustu knöpum setja stefnuna þangað með frábæra hesta.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar