Rannsakar með skipulögðum hætti tíðni magasára í hrossum

Úndína Ýr Þorgrímsdóttir er á lokaári í dýralækningum við Kapmannahafnar Háskóla. Hún vinnur nú að lokarannsókn hér heima á Íslandi og er markmið rannsóknarinnar að rannsaka tíðni magasára í íslenskum hrossum. Blaðamaður Eiðfaxa tók við hana viðtal um tilurð og ástæður rannsóknarinnar.
Ástæður þess að þú ætlar að kanna tíðni magasára í íslenskum hestum?
„Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka með skipulögðum hætti tíðni magasára í hrossum á Íslandi. Þetta væri fyrsta rannsókn sinnar tegundar á Íslandi en samskonar rannsóknir hafa verið gerðar víða erlendis sem sýnt hafa fram á að magasár finnst í öðrum hrossastofnum. En þar sem við höldum íslenska hestinum svo frjálsum úti í haga þegar hann er ekki í notkun höfum við einstaka sérstöðu þegar kemur að þessari rannsókn. Þannig getum við fengið innsýn í sjúkdóminn, meðal annars vitneskju um hvernig okkar hættir við að halda hross á húsi geta haft áhrif á hann. Það er mjög erfitt að greina magasár eingöngu með því að horfa á hestinn. Blóðprufur og saursýni gefa því miður engar ábendingar. Til þess að fá endanlega greiningu á magasári þarf að framkvæma magaspeglun á hrossinu. „
„Þessi rannsókn gæti verið liður að því að athuga hverskonar áhrif nútíma hestahald hefur á heilsu hrossa með tilliti til magasárs. Allt eftir því hver niðurstaða rannsóknarinnar verður, er möguleiki að ný vitneskja sem fæst stuðli að betri velferð hesta. „
Hvernig fer rannsóknin fram?
Rannsóknin fer fram í tveimur hlutum.
- Áætlað er að fyrri hluti rannsóknar (60 tryppi) verði magaspegluð fljótlega eftir að þau koma á hús í september 2021.
- Átta til tólf vikum eftir fyrstu magaspeglun verður aðgerðin endurtekin og niðurstöður bornar saman ásamt því að ca. 200 reiðhestar verða skoðaðir og magaspeglaðir.
Til þess að hrossið geti tekið þátt í þessari rannsókn þarf það að vera fastandi í 15-16 klst. fyrir skoðunina. Einnig þurfum við leyfi frá eigendum hrossanna til að deyfa hrossin fyrir magaspeglunina.
Hvernig eiga þeir sem vilja taka þátt að hafa samband?
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt geta haft samband við mig í gegnum netfang lokav.magasar21@gmail.com og þá sendi ég til baka kynningarbréf með öllum frekari upplýsingum.
Eitthvað fleira?
Smá fróðleikur um hesta:
Hesturinn er grasæta og úti í náttúrunni er hann á beit í 16-18 tíma á dag. Hann er gerður til þess að borða trefjaríkt fóður og borðar lítið í einu.
Hestar eru eina dýrategundin sem framleiðir stöðugt magasýru í maganum, ólíkt okkur mannfólki og öðrum dýrum þar sem að magasýrumyndun örvast t.d. þegar við finnum lykt af mat, hugsum um mat og þegar við byrjum að borða.
Magasár í hrossum myndast út af ertingu frá magasýrum. Það myndast ójafnvægi í hlutverki magaslímhimnunnar.
Þar sem munnvatn hestsins inniheldur basa (bikarbonat) er það eina sem vegur upp á móti magasýrunni og heldur þar með jafnvægi á sýrustigi magans.
Þegar hrossið tyggur myndast munnvatn. Því meira gróffóður, því meiri munnvatnsmyndun. Þar sem hestar á húsi hafa ekki frjálsan aðgang að fóðri og eru fastandi í lengri tíma en æskilegt er, þá kemur þetta ójafnvægi fram milli sýru og basa sem eykur hættuna á að hrossið þrói með sér magasár.
Of mikil sýra ertir slímhúðina í maganum og eyðileggur þar með vörn hennar og það myndast sár.
Ef þú/þið hefur/hafið áhuga á að taka þátt í þessari rannsókn með okkur, þér/ykkur að kostnaðarlausu þá værum við mjög þakklátar og munum senda frekari upplýsingar um verkferlið.

Úndína Ýr