Hafa verið týnd á fjöllum í tæpa viku
Þriðjudaginn 13.júlí, fyrir rétt tæpri viku, töpuðust fimm hross frá leitarskálanum við Gatfell á Uxahryggjarleið. „Fjögur af þessum hrossum eru þrælvön ferðahross og hafa farið víða um land en eitt þeirra er ungt og óvant. Þau eldri eru því spök og gæf.“ Segir Guðrún Jónsdóttir á Sandbakka í Flóa sem er eigandi hrossanna. „Það sáust spor sem við teljum að séu eftir þau við Tindaskaga en samkvæmt þeim var stefna þeirra í norðurátt.“
Eins og áður segir er um fimm hross að ræða en tvö þeirra eru jörp, tvö rauð með stjörnu og eitt bleikálótt. „Við vorum að leggja af stað frá Gatfelli að morgni þegar við sáum að nokkur hross voru fyrir utan næturhólfið. Við fórum að vinna að því að koma þeim aftur inn en styggð kom að mínum hrossum með þeim afleiðingum að þau tóku sig úr hópnum og stukku af stað.“
Flogið hefur verið yfir heilmikið svæði sem talið er að þau gætu leynst á en allt kemur fyrir ekki, ekkert hefur frést né sést af þeim. „Ef einhver er á ferð á þessum slóðum eða kann að hafa rekist á hópinn má hinn sami endilega hafa samband við mig í síma 863-9526 eða Davíð í síma 846-3444. Það er ómögulegt að segja hvar þau eru og biðla ég til allra ferðalanga að hafa augun opin.“ Segir Guðrún að lokum.