Tengill frá Hofi hæst dæmdur í Herning
Kynbótasýning fór fram í Herning í Danmörku um helgina þar sem sýnd voru 34 hross og þar af 29 í fullnaðardómi. Dómarar voru þau Elsa Albertsdóttir, Gísli Guðjónsson og Nina Bergholtz.
Hæst dæmda hross sýningarinnar var 5.vetra gamall stóðhestur, Tengill frá Hofi, ræktendur hans eru þau Jón Gíslason og Eline Manon Schrijver að Hofi í Vatnsdal. Faðir Tengils er Konsert frá Hofi og móðir hans er Þekla frá Hólum. Tengill hlaut 8,35 fyrir sköpulag, 8,43 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,41. Hann hlaut m.a. 9,0 fyrir samræmi, tölt og samstarfsvilja. Sýnandi hans var Søren Madsen.
Hæst dæmda hryssa sýningarinnar var María frá Rauðalæk sem er undan Ómi frá Kvistum og Mær frá Þúfu í Laneyjum. Hún hlaut 8,16 fyrir sköpulag, 8,15 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,15, Søren Madsen sýndi hana einnig. Ræktandi og eigandi er Stutteri Bjarup ehf.