Knapi rekinn úr landsliðinu

  • 31. október 2021
  • Fréttir
Tilkynning frá stjórn Landssambands hestamannafélaga

Landssamband hestamannafélaga hefur vikið knapa úr landsliðinu og samkvæmt heimildum Eiðfaxa er knapinn Jóhann Rúnar Skúlason. Fréttatilkynning Landssambandsins birtist hér fyrir neðan:

„Stjórn Landssambands hestamannafélaga (LH) og landsliðsnefnd hafa tekið ákvörðun um að víkja einum landsliðsmanni úr landsliðshópi Íslands í hestaíþróttum. Ákvörðunin er tekin í ljósi nýtilkominna upplýsinga um dóm sem landsliðsmaðurinn hlaut fyrir kynferðisbrot, en stjórn sambandsins og landsliðsnefnd hafði ekki verið kunnugt um dóminn.

Stjórn LH telur óverjandi að þeir sem hafi gerst sekir um og eða hlotið refsidóm fyrir alvarlegt kynferðisbrot séu í landsliðshópnum og komi fram sem fulltrúar LH fyrir Íslands hönd, hvort sem er hér á landi eða á erlendri grundu. Er slíkt til þess fallið að skaða ímynd LH, landsins og hestaíþróttarinnar í heild, einnig er það andstætt þeim gildum sem LH stendur fyrir, en sambandið tekur skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi.

LH er sérsamband innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), en samkvæmt lögum ÍSÍ er óheimilt að velja einstaklinga sem hlotið hafa refsidóma vegna kynferðisbrota samkvæmt XXII. kafla almennra hegningarlaga til starfa innan íþróttahreyfingarinnar, gildir þetta bæði um þá einstaklinga sem starfa sem sjálfboðaliðar og launþegar. Stjórn LH hefur m.a. litið til þessarar reglu við ákvörðun sína um að vísa landsliðsmanninum úr landsliðshópnum. Auk þess hefur verið litið til sambærilegar reglu sem samþykkt var á FEIF þingi 2019 og er að finna í viðauka 9 í lögum LH.

Á vettvangi LH og ÍSÍ fer nú fram vinna við endurskoðun reglna og umgjarðar er varðar ofbeldis- og kynferðisbrot og hvaða skilyrði iðkendur þurfi að uppfylla sem keppa fyrir hönd sambandsins.

Fyrir hönd stjórnar og landsliðsnefndar Landssambands hestamannafélaga,“
Guðni Halldórsson formaður LH
Kristinn Skúlason formaður landsliðsnefndar LH

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar