Hiti á kynbótabrautinni
Blaðamaður hefur fengið að heyra frá mörgum sýnendum og ræktendum hversu óánægðir þeir séu með dómstörfin og að dómar séu óskiljanlegir.
Reynir Örn Pálmason hlaut opinbera áminningu fyrir að fara í dómskúrinn á meðan á sýningu stóð og mátti heyra hann lesa yfir dómurum. Hlaut hann lófaklapp frá nokkrum áhorfendum þegar hann yfirgaf skúrinn. “Ég átti kannski ekki að gera þetta en þeir gengu algjörlega fram að mér. Ég labbaði þarna yfir og las þeim pistilinn. Mér var bara alveg sama. Þetta var svo langt frá því að vera í lagi.” segir Reynir
Atvikið átti sér stað eftir að Aðalheiður Anna, sambýliskona Reynis, sýndi hryssu sem lækkaði töluvert frá fordómi m.a. úr 9.0 fyrir tölt og brokk í 8.0. “Aðalheiður kom af þessari meri, henni fannst þetta gaman og hafði góða tilfinningu. Hún er búin að sýna hana einu sinni áður, bæði skiptin í 9,0 fyrir tölt, brokk, stökk og hægt stökk. Við hugsuðum okei kannski var þetta ekki alveg 9,0 tölt en alla veganna 8,5. Síðan fær hún 8,0 fyrir bæði tölt, brokk, hægt stökk og stökk. Til hvers er verið að gera þetta?.”
Í hádeginu var haldin óformlegur fundur með dómnefndinni þar sem farið var yfir málin en það kom sterklega til greina meðal margra knapa að draga hreinlega hrossin út. Nokkrir hafa nú þegar gert það “Stóðhestar eru að fara í braut á eftir og á morgun. Getur maður treyst því að dómnefndin dæmi hestana rétt? Hver er ávinningurinn á því að mæta með hestana ef það á svo bara að lækka þá. Þetta getur ekki gengið. Þetta eru hross sem jafnvel voru sýnd fyrir tveimur vikum síðan og eru þau virkilega orðin svona léleg á þessum tveimur vikum? Þetta eru bestu knaparnir okkar og bestu hrossin. Þetta getur ekki staðist. Það er einhverstaðar skekkja í þessu.”
Það hefur verið orðrómur milli brekkudómara kynbóta megin að gleðin við kynbótasýningarnar fari dvínandi. Reynir er nokkuð sammála því og leggur áherslu á það að Landsmót eigi að vera uppskeruhátíð. “Það er alltaf talað um veislu – veisla á Landsmóti. Þetta er svo langt frá því að vera veisla. Knapar eru komnir með hálfgerðan kvíðahnút yfir því að þurfa að fara í braut. Ræktendur orðnir tvístíga með það hvort það eigi að sýna hrossið eða ekki. Æj þetta er bara ekki gaman svona. Það er bara þannig.”
“Ég er líka ekkert einn á þessari skoðun. Við erum hér öll í sama hesthúsi. Hingað koma knapar sem hafa hingað til haft ágæta tilfinningu fyrir því sem þeir eru að gera. Sú tilfinning hefur algjörlega verið út úr kortinu. Auðvitað er alveg hægt að skilja eitt og eitt hross en heilt yfir er þetta óskiljanlegt. Hrossunum er bara snýtt. Tölurnar eru ekkert í samræmi við það sem knöpum finnst. Hef oft verið að kynbótasýningum þar sem margir eru að kvarta og kveina og hef ég verið einn af þeim. Ég hef aldrei áður fundið jafn breiða samstöðu meðal knapa og nú. Það eru hreinlega allir kynbótaknaparnir mjög ósáttir. Það segir kannski svolítið.”