Jean-Paul er í framboði til Forseta FEIF

  • 14. desember 2022
  • Fréttir
Viðtal við Jean-Paul Balz sem er í framboði til Forseta FEIF.

Aðalfundur FEIF verður haldin 3.-4. febrúar á næsta ári. Gunnar Sturluson hefur verið forseti FEIF síðan 2014 en hann hefur gefið það út að hann muni ekki gefa kost á sér aftur. Jean-Paul Balz er, eins og er, sá eini sem gefur kost á sér að verða næsti forseti FEIF. Hann var á landinu á dögunum og ákvað EIðfaxi að ræða við hann og fá að kynnast honum og störfum FEIF aðeins betur.

Jean-Paul er frá Sviss og býr og vinnur í Berne, höfuðborg Sviss. Hann er eigandi og framkvæmdastjóri fjölskyldufyrirtækja sem stunda vinnslu á timbri og framleiðslu á mismunandi meðhöndlunarkerfum fyrir timbur. Hann hefur verið formaður íþróttanefndar FEIF síðan 2018 og hefur mikla reynslu af því að sitja í stjórnum fyrirtækja en hann var m.a. gjaldkeri í evrópskum félagasamtökum í 16 ár. Hann er alþjóðlegur íþróttadómari, frístundaknapi og hefur hann nokkrum sinnum verið liðsstjóri landsliðs Sviss og Frakklands á Heimsmeistaramótum.

“Ég er í framboði þar sem Gunnar er að hætta. Stjórn FEIF stakk upp á mér sem kandídat í verkið og er ég tilbúinn að taka þetta stóra verkefni að mér,” segir hann en hann hefur góða þekkingu á starfinu sem hefur verið í gangi hjá FEIF.

“Það er nokkur stór verkefni framundan hjá FEIF næstu árin, eitt af þeim tengist þessu nýja hugtaki; the Social License to Operate. Þetta er málefni sem er að vaxa hratt hér erlendis og hefur verið mikið í umræðunni, þar sem hefðbundin viðhorf til dýrahalds eru tekin til umfjöllunar og þar á meðal er hestamennskan. Er það sjálfgefið að fólk ríði út á hestum, er spurt. FEIF hefur það verkefni að upplýsa aðildarlönd sín og knapa um stöðu mála og leita upplýsinga og þekkingar sem hægt er að nýta til að svara þessum sjónarmiðum og verja hestamennskuna. Við höfum nú þegar gert mikið til að tryggja velferð hrossa, sérstaklega í keppni og sýningum. Meira þarf samt að gera til að tryggja að umræða um dýravelferð og útreiðar fari fram á réttum forsendum og tekið sé tillit til þess að við höfum ræktað einstakan og fjölhæfan reiðhest sem er allt í lagi að ríða á. Draga þarf fram að hestamenn hafa ræktað og þjálfað þennan hest til að nýta hann á margvíslegan hátt,“ segir Jean-Paul. Annað verkefni nátengt þessu er velferð hrossa almennt séð. Eitt af einkunnarorðum FEIF er velferð hrossa og leggja samtökin mikla áherslu á þann málaflokk. „Því miður hefur umfjöllun um blóðmerarhald á Íslandi kastað rýrð á alla þá góðu vinnu sem unnin hefur verið að velferðarmálum hesta og er stefna Íslands í þessu málefni ekki í samræmi við stefnu FEIF. FEIF hefur tekið stöðu á móti þessari framkvæmd og mun halda áfram að gera það. Það er mikilvægt að þetta verði stöðvað því þessi starfsemi ber það ekki með sér að samræmast dýravelferð. Að auki er mikil hætta á því að neikvæð umfjöllun um blóðmerarhald felli skugga á hestamennsku á íslenskum hestum, ef þetta er eina kynið í Evrópu sem nýtt er í þessum tilgangi,“ bætir hann við.

Jean-Paul er spenntur fyrir starfinu og telur sig heppilegan mann í starfið. Komandi frá Sviss sé hann vanur lýðræðislegum vinnubrögðum og mun hann leggja áherslu á það í störfum sínum fyrir FEIF. “Ég er alþjóðlegur dómari en ekki hrossaræktandi, keppandi eða kaupandi. Ég myndi því segja að ég sé frekar óháður. Sviss er mjög lýðræðislegt land og er ég sjálfur alltaf að leita leiða til að viðhalda góðu jafnvægi og finna góðar lausnir við vandamálum og í samskiptum við annað fólk frá ólíkum löndum og með ólíkar nálganir,” segir hann og er spenntur fyrir nýjum verkefnum sem fylgja starfinu. “Þetta er áhugavert og krefjandi starf. Sem forseti FEIF ertu með mörg misjöfn verkefni og þarft að vinna með öllum deildum innan FEIF sem eru fimm talsins og aðilarlöndum FEIF sem eru 22 talsins. Ég þekki þessi störf ágætlega og tel mig reiðubúinn til starfa,” bætir hann við.

“Ég held ég geti mjög vel gert greinarmun á persónulegum óskum og markmiðum FEIF. Það er mikilvægt þegar þú ert að vinna í stjórn félaga að þú sért að vinna fyrir samtökin en ekki sjálfan þig eða landið sem þú kemur frá. Þarna tel ég mig vera í afar sterkri stöðu til að greina þar á milli,” segir Jean-Paul að lokum

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar