Horft um öxl

  • 24. desember 2022
  • Fréttir
Kveðja frá formanni deildar hrossabænda, Sveini Steinarssyni

Þá er árið senn á enda og ágætt að fara yfir það helsta sem hefur gerst hefur á árinu. Árið hefur að mínu mati í raun verið ágætt fyrir hestamennskuna ekki síst miðað við síðustu ár. Við getum verið kampakát með marga hluti og þó svo það sé margt sem er ekki í okkar höndum. Áhrif af innrás Rússlands inn í Úkraínu hefur og mun halda áfram að hafa mikil áhrif vítt og breitt og því miður ekki hægt að átta sig á hvernig þau ósköp enda og þó mikilvægt sé að halda í vonina um að því linni og er hugur minn hjá úkraínsku þjóðinni.

Það er okkar að sjá lausnir í því sem við fáum um ráðið og gott að hafa það hugfast í öllu sem fáumst við og leggja okkur fram um að gera slíkt af heilum hug og jákvæðni. Í sambandi við það starf sem tengist okkar frábæra hesti og þeirri umfangsmiklu og breytilegu hestamennsku sem stunduð er þá höfum við allt að segja um hvað og hvernig við gerum hlutina. Ég verð að segja að mikil og góð samvinna undanfarin ár milli hrossabænda, Landsambands hestamannafélaga, Félags tamningamanna og auðvita hestaáhugafólks alls er verðmætt samstarf sem vonandi bara eflist vex enn frekar með árunum en til þess þurfum við að vera dugleg að taka þátt og gefa kost á okkur í starfið. Sem dæmi um hverju við fáum áorkað með samvinnu er markaðsverkefnið Horses of Iceland en síðastliðið sumar var endurnýjaður samningur við ríkið sem gildir út árið 2025. Nýji samningurinn byggir á sömu forsendum og áður, ríkið leggur til fjármagn á móti því fjármagni sem hagsmunaaðilar (við öll) leggum fram og daglegt starf síðan í höndum verkefnastjóra sem Íslandsstofa leggur til en vissulega er það verkefnastjórn sem leggur megináherslurnar í starfinu. Það er ástæða til að nefna að Jelena Ohm sem hefur verið verkefnastjóri HOI frá upphafi verkefnissins hætti störfum í ágúst síðastliðnum og sannarlega ástæða til að þakka Jelenu fyrir frábæra vinnu og áhuga við að byggja upp þetta góða verkefni og fylgja því eftir eins og hún gerði. En maður kemur í manns stað, eins og sagt er, og hefur Þórdís Anna Gylfadóttir séð tímabundið um verkefnastjórn en nýlega var ráðin inn verkefnastjórinn, Berglind Margo sem mun leiða verkefnið næstu árin. Hún hefur þegar setið sinn fyrsta fund og verið boðin velkomin til starfa en við væntum mikils af henni í framtíðinni.

Einn af hápunktum ársins, sem við getum sannarlega verið ánægð með er landsmótið á Gaddstaðaflötum sem var kærkomið að geta haldið. Mótið var vel sótt, hestakostur og reiðmennska frábær en eins og við vitum er sífellt erfiðara að skara fram úr þó svo að við fáum alltaf hápunkta sem við jafnvel munum ævilangt. Það má líka nefna það að mótið gekk fjárhagslega vel og við kunnum öllum þeim sem unnu að mótinu miklar þakkir fyrir þeirra vinnu og aðkomu og vonandi erum við komin með góða forskrift að því hvernig hægt sé að láta þennan mikilvæga viðburð ganga fjárhagslega upp. Í sambandi við þátttöku kynbótahrossa í landsmótum þá er ástæða til að velta því fyrirkomulagi reglulega fyrir sér og á ráðstefnu fagráðs 20. nóvember síðastliðinn fórum við í hópavinnu þar sem málin voru rædd á grunni ákveðinna forsenda en jafnframt er mikilvægt að nýjar hugmyndir fái góðan hljómgrunn. Hvernig þessu verður háttað á næsta landsmóti eigum við örugglega eftir að ræða meira og betur eins og svo margt sem tengist vali á áherslum og forsendum í okkar starfi.

Ég vil hér í lokin upplýsa um að ég mun ekki gefa kost á mér til áframhaldandi formannssetu fyrir hrossabændur á búgreinaþingi, (aðalfundi hrossabænda) í mars á næsta ári, og nota því tækifærið til að þakka því fólki sem hefur tekið þátt í stjórn með mér sem og þeim fjölmörgu aðilum sem ég hef kynnst og stafað með á þessum vettfangi síðustu 10 árin.

Bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Sveinn Steinarson, formaður deildar hrossabænda.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar