Landsmót 2024 Landsmót í lausu lofti

  • 11. maí 2023
  • Fréttir
Óvissa ríkir um Landsmót hestamanna 2024 og hvar mótið eigi að vera haldið.

Hestamannafélagið Sprettur sótti um að halda mótið árið 2022 og fékk því úthlutað en vegna covid var mótinu frestað til ársins 2024.

Mikil ólga hefur verið undanfarið innan félagsins vegna ákvörðunar stjórnar Spretts að ætla halda mótið á félagssvæði Spretts en haft er eftir tveimur félagsmönnum sem sátu fundina hjá félaginu að farið hafi verið of seint af stað í að skipuleggja mótið, fjárstuðningur frá Kópavogsbæ og Garðabæ var minni en vonir stóðu til og einnig hafa verið miklar framkvæmdir á svæðinu undanfarið og svæðið langt frá því sem það þarf að vera til að halda Landsmót.

Haldnir voru aðal- og félagsfundir hjá félaginu vegna málsins og að endingu var skipaður starfshópur nú í apríl til að greina stöðuna og leggja til ákvörðun um framhaldið til stjórnar Spretts. Haldinn var félagsfundur hjá félaginu í vikunni þar sem niðurstöður starfshópsins voru kynntar. Í framhaldi hefur stjórn félagsins rætt við aðra aðila um að hýsa mótið.

Guðni Halldórsson formaður Landssambands hestamannafélaga segir stöðuna vera krítíska. „Það er komin upp erfið staða sem þarf að leysa og nú ríður á að finna lausn á þessu máli sem allra fyrst en ekki að leggjast í skotgrafirnar. Stjórn Landsmóts ehf. og stjórn Landssambands hestamannafélaga munu funda á morgun til að fara yfir stöðuna í málinu. Staðan sem er komin upp er fordæmalaus og án hliðstæðu. Við munum reyna gera allt til að tryggja það að haldið verði gott Landsmót eftir rúmt ár en það má ekkert út af bregða.“

Formaður Spretts vildi ekki tjá sig um málið fyrr en að fundarhöldum loknum á morgun.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar