Landsamband hestamanna Sigríður Ingibjörg tekin inn í U21-landsliðshóp LH

  • 1. júní 2023
  • Tilkynning
Landsliðsþjálfari U21-landsliðs LH í hestaíþróttum hefur ákveðið að taka Sigríði Ingibjörgu Einarsdóttur úr hestamannafélaginu Sindra inn í hópinn.

 

Hekla Katharína Kristinsdóttir landsliðsþjálfari U-21 árs landsliðsins tilkynnti í byrjun sumars að hópurinn væri enn opinn en fyrir utan góðan keppnisárangur er það forsenda fyrir valinu í U21 að knaparnir séu með hest falan í landsliðsverkefni ársins sem er HM í Hollandi.

Í U21 landsliðshópi LH eru nú 15 sterkir knapar sem berjast um þau fimm sæti sem í boði eru fyrir ungmenni á HM í Hollandi í ágúst.

Sigríður Ingibjörg hefur sýnt eftirtektarverðan árangur í skeiði á Ylfu frá Miðengi. Ylfu keypti Sigríður fyrir fermingarpeningana sína, 6 vetra gamla. Þá var markmiðið að eignast hest til þess að keppa á í hringvallargreinum. „Svo kom í ljós að hún hentaði ekki neitt sérstaklega vel í það verkefni og þá ætlaði ég að selja hana. Bróðir minn stakk upp á að ég myndi fyrst prófa að leggja hana og taka það upp á myndband. Ég gerði það og þá kom í ljós að hún var svona feiknar efnileg og auðvitað ekki til sölu lengur. “ segir Sigríður.

Þær urðu Íslandsmeistarar á Hólum 2021 og hafa svo komið af fullum krafti inn í keppnistímabilið núna í vor. Sigríður og Ylfa eru eftirtektarvert keppnispar og eru boðnar velkomnar í U21 árs landsliðshópinn.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar