Hagræðing úrslita í Meistaradeildinni!?!
Lokakvöld Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum var haldið 14. apríl. Kom upp sú staða að tveir knapar voru jafnir í einstaklingskeppninni og tvö lið jöfn í liðakeppninni. Eftir lokagreinina, flugskeið í gegnum höllina, upphófst mikil reikistefna í stigaútreikningi. Upp kom sú staða að tvær kærur voru sendar inn á borð Meistaradeildarinnar þar sem sett er út á stigagjöf í flugskeiðinu og er önnur þeirra einnig komin inn á borð Landssambands hestamannafélaga en þetta staðfestir formaður LH, Guðni Halldórsson.
“Ég get staðfest það að hafa fengið kæruna inn á borð til mín þar sem kallað er eftir aðkomu formanns að því að leysa þetta mál. Hver hún á að vera er örlítið óljóst þar sem staða Meistaradeildarinnar innan regluverks LH er óljós,” segir Guðni.
Rétt skal vera rétt
Árni Björn Pálsson er einn af þeim sem kærði niðurstöður Meistaradeildarinnar. Eiðfaxi hafði samband við Árna og spurði hann um ástæðu þess að hann kæri stigagjöfina í flugskeiðinu.
“Málið snýst ekki um einhverja bikara eða peningaverðlaun. Málið snýst um að rétt skal vera rétt og að fylgt sé reglum. Hér er greinilegt að svo er ekki gert og þrátt fyrir að hafa gert ítrekaðar tilraunir til að leiðrétta þetta hefur ekkert verið aðhafast í málinu nema skýla sér á bak við reglur sem tengjast tiltekinni keppnisgrein ekkert,” segir Árni Björn og bætir við; “Hagræðing úrslita er litið grafalvarlegum augum í öðrum íþróttagreinum. Hestaíþróttin á ekki að vera þar undanskilin og alls ekki Meistaradeildin. Ég hef verið keppnismaður í Meistaradeildinni í mörg ár og oft náð ágætum árangri. Ég hefði aldrei viljað vera krýndur sigurvegari á kostnað einhvers annars eða vera í sigurliði sem úthlutað hefði verið stigum á kostnað annars liðs. Ég geri því þá kröfu til stjórnar deildarinnar að þessi mistök verði leiðrétt þannig að hestaíþróttinni sé sómi að og saga Meistaradeildarinnar verði rétt skráð.”
Fóru eftir reglum LH ekki deildarinnar
Bjarni Elvar Pjetursson, eigandi liðs Hjarðartúns, er hinn aðilinn sem sendi inn kæru. Bjarni vill meina að augljóst sé að ekki hafi verið farið eftir reglum deildarinnar. “Í sérreglum Meistaradeildarinnar um flugskeið, sem ég hvet alla til að kynna sér, kemur ekkert fram um hvernig eigi að raða knöpum sem eru með jafnan tíma í sæti utan fyrsta sætis. Þannig að það segir sig sjálft að meginregla deildarinnar um stigagjöf gildi og því eigi stigin að skiptast jafnt á milli knapana eins og í öllum öðrum greinum,” Ef stigaútreikningur er skoðaður er ljóst að knapar skiptu ekki með sér stigunum heldur var farið eftir reglum LH sem segir til um að ef knapar eru með jafnan tíma ákvarði næstbesti tíminn sætaröðun. “Þetta er bæði á skjön við meginreglu deilarinnar um stigagjöf og við reglu deildarinnar um hvernig raða skuli í fyrsta sæti ef tveir knapar eru jafnir í fyrsta sæti í flugskeiði,” bætir hann við.
“Ég hélt einfaldlega að gerð hefðu verið mannleg mistök með því að fara ekki eftir sérreglum Meistaradeildarinnar um flugskeiðið og ákvað því að benda stjórninni formlega á það með því að kæra niðurstöðuna.” Bjarni og Árni fengu báðir fljótt svar við kærunum og þar staðfestir stjórnin að hún vinni eftir reglum LH og lætur þær gilda en ekki reglur deildarinnar. “Stjórnin ber fyrir sig grein 5.4 í reglum Meistaradeildarinnar sem segir: ”Tíminn er mældur með sjálfvirkum tímatökubúnaði og er útfærsla svipuð og í 100m skeiði.“ Það er nokkuð ljóst að hér er ekki verið að tala um sætaröðun heldur útfærsluna á tímatökubúnaðinum. Það er enn augljósara þegar reglurnar eru skoðaðar í heild sinni því þrjár greinar fjalla sérstaklega um sætaröðun og í grein 5.1 er sérstaklega tekið fram að LH reglurnar gildi ekki um flugskeið. Stjórnin kaus að líta fram hjá þessu öllu og túlka grein um tímatökubúnað á þann hátt að raða bæri í sæti í flugskeiði samkvæmt LH reglunum,” segir Bjarni og bendir á að nefndin sem fer yfir kærurnar séu nánst sömu aðilar og þeir sem ákváðu að fara ekki eftir reglum deildarinnar og eru í stjórn hennar. Báðu þeir Bjarni og Árni Björn báðir um að nefndin yrði skipuð óháðum aðilum en það var ekki gert. “Samkvæmt reglum Meistaradeildarinnar fjallar stjórn hennar um þær kærur sem berast þannig að hún er í raun dómari í eigin máli hvað varðar túlkun á reglunum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir var stjórnin ekki tilbúin að kalla til óháða aðila til að skoða málið,” bætir hann við.
Breytingar á reglum eiga heima á aðalfundi
Bjarni og Árni Björn gagnrýna báðir þá staðreynd að stjórnin taki ákvörðun um að breyta reglum fyrir utan aðalfund Meistaradeildarinnar en þar er réttur vettvangur fyrir slíka ákvarðanartöku.
“Ef allt hefði verið klárt að hálfu stjórnar Meistaradeildarinnar hefði bara tekið 5 mínútur að reikna út stigin og þessi reikistefna sem átti sér stað verið óþörf. Það á auðvitað ekki að vera svo að reglum deildarinnar sé breytt eða þær hunsaðar á ögurstundu eftir að keppni er lokið. Ef breyta á reglum á það að gerast á aðalfundi Meistaradeildarinnar að vel athuguðu máli eins og undanfarin ár. Með þessari ákvörðun er í raun og veru stjórnin og hennar ráðgjafar að velja sigurvegarann með því að velja að nota LH reglurnar og hunsa reglur Meistaradeildarinnar. Það var líka grátlega að horfa uppá það að fulltrúi liðseiganda og fulltrúi knapa í stjórn Meistaradeildarinnar sem höfðu báðir verulega hagsmuna að gæta beittu sér að krafti í þessari ákvörðunatöku,” segir Bjarni
“Það getur vel verið að okkur finnist reglur Meistaradeildarinnar sem voru samþykktar á aðalfundi deildarinnar í október 2022 þarfnast úrbóta. En reglur eru reglur þar til þeim er formlega breytt og hljóta þær að gilda. Mér finnst Meistaradeildina hafa sett verulega niður í þessi ferli og að stjórn hennar hafi tapað trúverðugleikanum með því að hunsa eigin reglur og hafa þannig bein áhrif á úrslit Meistaradeildarinnar 2023 bæði í einstaklingskeppninni og liðakeppninni,” segir Bjarni að lokum.
Kýs að tjá sig ekki um einstaka mál
Sigurbjörn Eiríksson er formaður Meistaradeildarinnar en í samtali við Eiðfaxa sagðist hann ekki tjá sig um einstaka mál en vísar til niðurstöðu nefndar sem sett var á fót til að taka þessi mál fyrir samkvæmt reglum deildarinnar en sú nefnd var samróma um niðurstöðuna.
Lokastöðu Meistaradeildarinnar í einstaklings- og liðakeppni má sjá hér fyrir neðan.
Liðakeppni