Að fyrirbyggja hófsperru er besta vörnin

  • 7. júlí 2023
  • Aðsend grein
Aðsend grein frá Dýraverndarsambandi Íslands

Hófsperra er kvalafullur efnaskiptasjúkdómur í hrossum sem sífellt er að verða algengari. Þegar það er sólríkt og hlýtt eykst sykurmagn í grasi verulega, sérstaklega í nýgræðingi. Einnig á köldum dögum.

Það er sykurmagnið sem er varasamt fyrir hrossin og getur valdið þessum þjáningafulla sjúkdómi. Meðhöndlun er erfið og þurfa hross sem fá sjúkdóminn að vera undir smásjá það sem eftir er. Í sumum tilfellum verður að aflífa hrossin ef þau eru sárkvalin og bati ekki í vændum.

Mikilvægt er að hestaeigendur fylgist vel með ástandi hrossa sinna á útigangi. Harður makki er eitt byrjunarstig sjúkdómsins og verður þá að taka hrossin strax á hús og af grænum grösum og hafa strax samband við dýralækni.

Séu hross of feit er það einnig talið auka líkur á sjúkdómnum. Hross vilja oft ekki hreyfa sig mikið þegar þau eru orðin veik þar sem þau verkjar. Þegar hross eru komin með hófsperru vilja þau ekki setja þunga á ákveðna fætur, oft framfætur og geta ekki gengið fyrir kvölum.

Beitarstýring er mikilvæg og að hrossum sé frekar beitt á hátt gras en stutt. Hér á landi er almennt ekki beitarstýring eins og gerist erlendis heldur hafa hross yfirleitt óheft aðgengi að beit allan sólarhringinn. Þetta er varasamt og verður að fara að endurskoða af hálfu hesteigenda. Að fyrirbyggja sjúkdóminn er besta vörnin.

DÍS hvetur hestaeigendur að fylgjast vel með hrossum sínum hvað þetta varðar – á vorin, sumrin og á haustin.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar