Hrossamælingar / WorldFengur – Tímamót
Nú hefur ný og spennandi viðbót bæst við upprunaættbók íslenska hestsins WorldFeng. Frá og með mánudeginum 28. ágúst varð fært að skrá hefðbundnar mælingar hrossa og vista í gagnabankanum – utan reglulegra kynbótasýninga. Þetta þýðir meðal annars:
- Hvenær sem er má óska eftir mælingu, fyrir hvaða hross sem er, geldinga – hryssur – stóðhesta, og mælingar verða sýnilegar öllum notendum WorldFengs á heimsvísu. Fylgjandi og sjálfsögð krafa er að gripurinn sé grunnskráður og örmerktur
- Öll hefðbundin mál eru tekin og skráð, alls x13 m. hófamálum
- Sjá sérstakan flipa í grunnmynd hvers hests í WorldFeng: Mælingar
Með þessu vinnst ærið margt. Gullnáman WorldFengur safnar að sér enn meiri samræmdum gögnum sem geta nýst til fjölbreyttra rannsókna og framfaramála hrossaræktarinnar til framtíðar. Seljendur hrossa geta gefið ítarlegri upplýsingar um sína gripi í WorldFeng, enda ævinlega hugur kaupanda að vita að lágmarki hæð á herðar. Eigendur virkra og verðandi keppnishrossa fá tækifæri til að láta mæla sín hross enda leyfð hófalengd í keppni afleiða herðamáls (M1). Sama gildir um eigendur trippa í tamningu/þjálfun fyrir fyrsta kynbótadóm, þar sem hæð þeirra á herðar ákvarðar leyfða hámarks hófalengd í dómi og svo mætti áfram og lengi telja.
Þá er einnig mögulegt að skrá eistnamælingu/mat utan reglulegra sýninga en hún er framkvæmd með sama hætti og ef um kynbótasýningu væri að ræða (grænt T / rautt T). Sá möguleiki skapar ræktendum t.d. svigrúm til að huga að eistnaheilbrigði ungra hesta í tíma og e.t.v. áður en miklu er kostað til þeirra.
Ath. Þessar nú mögulegu þjónustumælingar allra hrossa skoðast ekki sem grunnur sköpulagsdóma á kynbótasýningum. Engar samhliða breytingar verða á framkvæmd kynbótadóma – þar sem öll hross skulu mælast á sýningarstað, hér eftir sem hingað til.
Mælingamenn, starfsfólk RML, annast þær mælingar sem hér er vísað til á Íslandi, en lista yfir rétthafa til mælinga við sýningahald FEIF- landa má sjá í gegnum tengil hér neðar.
Áhugasamir eru eindregið hvattir til að nýta sér nýja þjónustu og setja sig í samband við ráðunauta RML. Vinna við hrossamælingar er innheimt samkvæmt opinberri verðskrá RML.
Þá má minna á að afar spennandi LM-vor er innan seilingar og komandi haust og vetur kjörinn tími til að yfirfara stöðu DNA-sýna (ætternisstaðfestinga) þeirra hrossa sem ætlað er að komi fyrir dóm árið 2024. Í því samhengi má árétta að öllum rétthöfum til örmerkinga hrossa á Íslandi hefur Matís boðið til samstarfs um DNA-greiningar en þess utan eru dýralæknar og starfsfólk RML ætíð á vaktinni og tilbúið í sýnatökur og örmerkingar hrossa.
Sjá nánar:
Listi yfir rétthafa til mælinga við sýningahald FEIF-landa
Verðskrá RML
Frétt af vef RML um DNA-sýnatökur hrossa og örmerkingamenn (birt 3. mars 2023)
www.rml.is