Á fullri ferð – framúr sér?

  • 27. apríl 2020
  • Fréttir

Eiðfaxa barst bréf frá Sveinbirni Eyjólfssyni þar sem hann veltir upp þeirri spurningu hvort rétt sé að veita Sleipnisbikarinn og aðra gripi á Landssýningu sem fyrirhuguð er í sumar á Rangárbökkum. Bréfið í heild sinni má sjá hér að neðan.

Fordæmalaus staða. Mikið notaður frasi þessa dagana. Engir Íslandsmeistarar í handbolta eða körfubolta. Liverpool þarf trúlega að bíða enn um sinn. Ekkert landsmót. Engir landsmótssigurvegarar. Eins og knapar og hrossaeigendur eru búnir að leggja á sig.

En lífið heldur áfram og í næstu framtíð birtir til. Við eigum einmitt að trúa sterkt á það góða og læra af þessu.

Hugmynd Félags Hrossabænda um hátíðardag á Hellu 27. júní og fá þangað þau hross sem best hafa staðið sig á kynbótasýningum vorsins er einmitt af hinu góða. Gera eitthvað skemmtilegt. Rífa okkur upp úr deyfðinni. Hafa eitthvað til að hlakka til.

Ennn… Stundum fara menn fram úr sér. Sú hugmynd að afhenda á hátíðinni verðlaun sem eingöngu eru veitt á landsmótum gengur ekki upp. Sleipnisbikarinn, sem dæmi, eru æðstu verðlaun í íslenskri hrossarækt. Síðast þegar ég vissi stóð í skipulagsskrá fyrir þau verðlaun, fyrir þann bikar, fyrir þá upphefð að sá bikar skuli afhentur á Landsmóti. Það getur ekki verið hugmynd Félags Hrossabænda að gengisfella þessi verðlaun. Sama mun gerast með öll önnur verðlaun sem samkvæmt skipulagsskrá og reglum skal eingöngu veita á landsmótum. Þau gengisfalla ef þau verða veitt á þessum hátíðardegi. Þessi hátíðardagur, þó góður sé, er ekki landsmót, ekki einu sinni nálægt því.

Skora á ágæta stjórn Félags Hrossabænda að skoða þessa hugmynd um „landsmótsverðlaun“ betur. Gengisfellið ekki æðstu verðlaun hrossaræktarinnar. Ef þið viljið halda ykkur við að verðlauna hross í hverjum flokki og afkvæmahesta, gerið það þá með einhverjum öðrum hætti. Þau verðlaun sem eingöngu á og má afhenda á landsmótum verða ekki veitt á öðrum tíma.

Það verður ekki landsmót fyrr en árið 2022. Þá veitum við þau verðlaun sem á að veita á landsmótum. Fyrir framan þúsundir aðdáenda íslenska hestsins. Og fögnum með viðeigandi hætti.

Góð kveðja úr Borgarfirði, Sveinbjörn Eyjólfsson

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<