Á Kaffistofunni í gang á nýjan leik

  • 10. janúar 2023
  • Fréttir

Umsjónarmenn þáttanna eru þeir Gísli Guðjónsson, Arnar Bjarki Sigurðarson og Hjörvar Ágústsson

Hlaðvarpsþátturinn Á Kaffistofunni hefur göngu sína á nýjan leik nú í janúar.

Hlaðvarpsþátturinn Á Kaffistofunni hefur göngu sína á nýjan leik nú í janúar. Umsjónarmenn þáttanna þeir Arnar Bjarki Sigurðarson, Gísli Guðjónsson og Hjörvar Ágústsson segjast spenntir fyrir framhaldinu.

„Það er kominn ansi mikill hugur í okkur, við ætluðum nú bara að taka okkur stutt sumarfrí og byrja aftur að taka upp þætti síðastliðið haust en svo flaug tíminn frá okkur í dagsins önn en núna erum við komnir í mikinn gír. Við höfum alltaf spilað þetta bara af fingrum fram þar sem þetta er nú bara hugðarefni okkar en ekki eiginleg atvinna en við fundum hjá hlustendum okkar að þolinmæðin eftir nýjum þáttum var á enda,“ segja þessi hressu kappar í samtali við Eiðfaxa.

En hverju mega hlustendur þáttanna eiga von á núna í framhaldinu? „Þetta verður með svipuðu sniði, við fáum til okkar áhugaverða viðmælendur, tökum á málefnum líðandi stundar og ræðum allt það sem tengist íslenska hestinum. Við erum komnir með nýtt stúdíó sem er staðsett í glæsilegri aðstöðu í Bankanum vinnustofu á Selfossi sem staðsett er í gamla Landsbanka húsinu, þessi staðsetning gefur okkur aukna möguleika í því að hringja í fólk og taka viðtal við það í gegnum síma og það mun kláralega koma sér vel. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum datt allt gamla efnið okkar út af hlaðvarpsveitum en það mun allt birtast á ný nú von bráðar ásamt fyrsta þætti eftir endurkomu.“

Hlaðvarpsþættirnir verða áfram aðgengilegir hér á vef Eiðfaxa sem og á Spotify, en það má einnig benda á að Á Kaffistofunni er nú komið á Instagram og þar má fylgjast með því sem fram fer.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar