„Á starfi mínu við Hólaskóla mikið að þakka“

  • 24. júní 2020
  • Fréttir

Myndin er úr einu þróunarverkefnunum Hólaskóla Keppni í hestamennsku, þar sem mátti vera með tvo til reiðar.

Viðtal við Mette Mannseth sem á í ár 20 ára starfsafmæli við Háskólann á Hólum

Mette Mannseth þekkja allir hestamenn enda er hún á meðal fremstu reiðmanna, ræktenda og reiðkennara landsins. Auk þess að stunda viðamikla hrossarækt og þjálfun að Þúfum í Óslandshlíð í Skagafirði er hún yfirreiðkennari við Háskólann á Hólum.

Mette hefur starfað sem reiðkennari á Hólum frá árinu 2000 og á því tuttugu ára starfsafmæli í ár. Af því tilefni hafði blaðamaður Eiðfaxa samband við Mette og spurði hana nánar út í starfið á Hólum sem hefur verið stór hluti af lífi hennar þessi 20 ár.

„Hvar á að byrja“ Segir Mette þegar hún er spurð að því hverjar séu helstu breytingar við kennsluaðferðir frá því hún hóf störf. „Reiðkennsluaðferðir um allan heim hafa í raun tekið stökkbreytingum á þessum tíma og við á Hólum teljum okkur hafa fylgt og tekið þátt í þeirri þróun. Fyrst var nánast eingöngu kennt í stórum hópum en núna er töluvert um einkakennslu og þá hefur fækkað í þeim hópum sem kennt er í einu. Hópakennslan stendur þó alltaf fyrir sínu þar sem maður er að kenna afmarkað námsefni eða aðferðir sem allir þurfa að læra og þannig kenna kerfisbundna þjálfun. Það gefur svo auga leið að einkakennslan er einstaklingsmiðaðari og hjálpar knapa og hesti meira með samspil þeirra í milli. Með endurmenntun kennara í kennslufræði uppfærðust kennsluaðferðir einnig almennt. Við höfum verið að þróa mismunandi nálgun í reiðkennslu og notað þær til að sjá hvaða nálgun hentar hvaða nemenda og hvaða verkefni hverju sinni. Eitt dæmi um þetta er sú að ein nálgunin er að segja nemandanum stöðugt til hvernig gengur og hvað hann á að gera á meðan önnur nálgun er að hjálpa nemandanum að finna sjálfur hvað þarf að bæta og finna lausnir í framhaldinu. Einnig er lagt mikið upp úr því að tengja saman verklega og bóklega kennslu það er t.d. gert með því að nemendur lesa sér til um ákveðna reiðtækni og kynna það fyrir bekkjarfélögunum í verklegri kennslu á hesti.“

Mette hefur kynnst mikið af nemendum á síðastliðnum 20 árum. Mynd: Noemi Ehrat

Hvað felst í því að starfa sem reiðkennari við Hólaskóla?

„Starfið er í raun margþætt sem gerir það skemmtilegt en ég myndi skipta því niður í þrjá aðalþætti; Kennslu, þjálfun hesta og þróun. Yfirleitt kennir maður u.þ.b. hálfan daginn en í hinn tímann undirbýr maður kennslu og þjálfar hross fyrir skólann. Allir reiðkennarar við skólann er með hross sem stefnt er með í mismunandi verkefni. Hryssur og stóðhesta er almennt stefnt með í kynbótadóm og geldinga í keppni en aðalmarkmiðið er að byggja upp góða skólahesta. Skólahestarnir eru á margan hátt grunnurinn að skólastarfinu og því má líta á þjálfun þeirra sem eflingu kennslugagna. Þróunarhlutinn fer fram á hverjum degi í gegnum starfið en í flestum námskeiðum koma fleiri en einn kennari að og þannig myndast gott samstarf og þróunarmöguleikar. Einnig eru reglulega haldnir þróunarfundir reiðkennara ásamt endurmenntun þegar gestakennarar koma á staðinn eða þá að kennari fer á námskeið eða ráðstefnu og deilir þekkingunni með öðrum kennurum. Síðastliðinn ár höfum við fengið frábæra gestakennara og má því til stuðnings nefna Jakob Svavar, Teit Árnason, Sigurbjörn Bárðarson, Daniel Stewart, Julie Christiansen í gegnum Internetið vegna Covid-19, Hillary Clayton, Þorvald Árnason og svo eigum við t.d. von á því að fá Olil Amble í haust.“

Mette tók við reiðmennskuverðlaunum FT á Braga frá Hólum sem var m.a. tvisvar í A-úrslitum í tölti á Íslandsmóti. Mette þjálfaði Braga í mörg ár sem hluti af starfinu, og var hann virkur sem sýnikennsluhestur í náminu.

En hvað telur Mette að séu helstu kostir og gallar starfsins?

„Eigin Þróun, fjölbreytileiki og sveigjanleiki eru orð sem koma upp í hugann. Í þessu starfi hef ég verið svo lánsöm að fá að starfa með fagfólki á hverjum degi bæði eru það framúrskarandi fagmenn sem reiðmenn og þjálfarar og svo sérfræðingar innan skólans á sviðum fóðrunar, þjálfunarlífeðlisfræði, hreyfifræði og svo framvegis en ég hef lært mikið af öllu þessu samstarfsfólki mínu. Þá hef ég einnig kynnst í gegnum rannsóknir, ráðstefnur og námskeið á vegum skólans mörgum af helstu sérfræðingum heimsins á hinum ýmsu sviðum hestamennskunnar. Svo er maður hluti af Háskóla með tvær aðrar deildir sem er mjög heilbrigt og gott að vinna með fólki sem ekki er í hestum og eykur það víðsýni.

Sveigjanleikinn felst meðal annars í því að ég get einnig farið og kennt annars staðar eða þá farið sjálf á námskeið en það er líka mikilvægur hluti af þróun og endurmenntun minni að hitta knapa og hesta með annan bakgrunn en gengur og gerist á Hólum. Í öllu starfi þarftu að skila þínum vinnutíma og framlagi og það er að sjálfsögðu bindandi en þú getur ekki ákveðið að hætta að kenna einum nemenda af því það gengur illa heldur verðurðu að finna leiðir til að klára dæmið, sem mér finnst reyndar mjög þroskandi og kennir manni þrautseigju og að gefast aldrei upp. Ótrúlegir hlutir geta gerst sérstaklega hjá ungi fólki og maður kemst ansi langt þegar maður finnur styrkleika nemandans og vinnur  út frá þeim. Eitt að því mikilvægasta  og skemmtilegasta er að kynnast nemendum, sjá þróun og þroska þeirra og læra af þeim. Það er ótrúlegur dugnaður og þrautseigju í fólkinu sem ákveður að færa sig um set og hefja nám á Hólum í Hjaltadal. Það er jafnvel frá öðru landi hvað þá heimsálfu, og vill allt gera til að verða sem best í faginu. Ég er búin að kynnast ótrúlega hæfileikaríku og duglegu fólk á ferlinum og er það mjög lærdómsríkt að fylgjast með þeim í náminu en einnig eftir námið. Maður veit aldrei af hverjum maður á eftir að læra mikilvæga hluti.

Auðvitað gæti ég talið upp galla eins og peningaskort stofnunarinnar sem takmarkar aðstöðuna og eykur streitu en ég held að það sé alls staðar í öllum störfum að einhverju leyti. Það sem mér finnst erfiðast við starfið er að láta nemenda vita að hann hafi ekki staðið sig nógu vel á prófi eða þá að ég hafi ekki náð að hjálpa nógu vel. Eða þá ef nemendur kvarta undan kennslu eða skipulagi þó svo að maður hafi lagt sig allan fram um að gera vel en þá verður að gjöra svo vel að laga það, þýðir lítið að fara í fýlu sem ég held að sé þroskandi líka. Það er mjög ólíkt því að ef kennslan manns hentar ekki á einhver helgarnámskeið að þá fær maður sjálfsagt ekki að vita af því af því sá nemandi kemur líklega ekki aftur næst. Það sem stendur upp úr er það að manni finnst maður geta skipt máli í einhverju sem manni finnst skipta málið. Að byggja upp skólann og þróa og hafa í sínu starfi áhrif á fólkið sem mun taka við og þróa hestamennskuna á íslenskum hestum í framtíðinni. Það er ótrúlega gaman að sjá fyrrverandi nemendur okkar standa sig vel á hinum ýmsu sviðum en þeir eru mjög áberandi í keppnum og sýningum en einnig í skólum, reiðskólum og á tamningastöðvum og þeir sem mennta sig áfram verða t.d. vísindamenn sem rannsaka og auka þekkingu. Eitt af því mikilvægasta sem við reynum að kenna okkar nemendum er að læra að læra.“

Þróunarstarfið og samstarfsfélagar hafa ýtt Mette út í að prófa ýmislegt

 

Hvernig horfi framtíð skólans við þér? Hversu lengi ætlar þú starfa í kennaraliði skólans?

„Framtíð skólans er björt, aðsóknin er mikil og þeir nemendur sem sækja um skólavist verða sífellt hæfari og aðstaðan og hestakostur skólans er frábær. Meistaranám í hestafræðideildinni er að hefjast í haust og það verður mjög spennandi að taka þátt í þeirri þróun. Á teikniborðinu er svo meistaranám í reiðmennsku og reiðkennslu sem hefst mjög fljótlega. Ég persónulega hef engin plön um að breyta til og hef sjálf mjög mikla þörf fyrir að læra og þróa mig og skólinn hefur veitt mér þessa möguleika. Þá hefur skólinn orðið til þess að ýta mér út í hluti sem ég hefði líklega ekki sótt í sjálf. Dæmi um það er kennaranám við Háskólann á Akureyri sem við Þórarinn Eymundsson sóttum í gegnum skólann. Þá má einnig líka nefna Meistarapróf FT sem skólinn þrýsti á mann að taka, óteljandi ráðstefnur og námskeið sem ég hefði ekki haft aðgang að eða þar af síður vitað af ef ekki væri vegna starfsins. Vinnan mín fer vel saman við það sem mig langar mest að gera sem er að læra, rækta hross, verða betri reiðkennari og ekki síst verða betri hestamaður. Ég fæ semsagt borgað fyrir það að læra á hverjum degi eitthvað um mitt helsta áhugamál og ástríðu, hestinn, en ekki segja neinum það samt“ segir Mette að lokum í gamansömum tón en það er greinilegt á þessum orðum að þrátt fyrir tvo áratugi í starfi að þá er áhuginn hvergi nærri horfinn.

Eiðfaxi þakkar henni fyrir spjallið og óskar henni áframhaldandi velgengni í leik og starfi.

Vel hefur farið saman að rækta hross og byggja upp starfsemi með Gísla Gíslasyni heima á Þúfum. Fyrir ofan er Blundur frá Þúfum og Mette í túninu heima og fyrir neðan eru Mette og Gísli á Landsmóti 2016

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<