Adam frá Ásmundarstöðum fallinn

  • 22. mars 2024
  • Fréttir

Adam og Logi Laxdal í A-flokki á LM2002

Adam stóð efstur í A-flokki á LM árið 2002 og fékk Heiðursverðlaun árið 2011

Adam frá Ásmundarstöðum var fæddur árið 1993 og var því þrjátíu vetra gamall þegar hann féll nú í byrjun mars. Adam var ræktaður af þeim hjónum Sigríði Sveinsdóttur og Jóni Á. Jóhannssyni. Faðir Adams er Stígur frá Kjartansstöðum, sonur Náttfara frá Ytra-Dalsgerði og Ternu frá Kirkjubæ, móðir hans er Siggu-Brúnka frá Ásmundarstöðum undan Gusti frá Sauðárkróki (Höfða-Gusti) og Flugu frá Heiði.

Adam kom fyrst fram fjögurra vetra þá sýndur af Friðþjófi Erni Vignissyni en hann sýndi hann einnig fimm vetra bæði á vorsýningu og Landsmótinu á Melgerðismelum þar sem hann hlaut 8,24 í aðaleinkunn.

Adam frá Ásmundarstöðum

Adam og Friðþjófur á LM1998 á Melgerðismelum

Logi Þór Laxdal sýndi hann í hæsta dómi á Landsmótinu í Reykjavík árið 2000 þar sem hann hlaut 8,36 í aðaleinkunn og þar af 9,0 fyrir skeið. Tveimur árum síðar gerðu þeir félagar sér svo lítið fyrir og stóðu efstir í A-flokki á Landsmótinu á Vindheimamelum með 8,96 í einkunn í úrslitum.

Adam skilur eftir sig spor í ræktunarsögunni en hann hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi árið 2006 og svo heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2011. Þá hafa allmörg afkvæmi hans unnið til afreka á keppnisvellinum og þá sér í lagi á skeiðvængnum en Adam stendur vel í kynbótamati fyrir skeið með 121 stig. Samkvæmt Worldfeng á hann 535 afkvæmi og þar af eru 138 þeirra með fullnaðardóm.

Afkvæmaorð Adams:

Adam gefur stór hross með skarpt höfuð og vel borin, fínleg eyru en smá augu. Hálsinn er langur og grannur við háar herðar, kverkin klipin. Bakið er beint og lendin öflug en heldur grunn. Afkvæmin eru langvaxin, léttbygg og fótahá. Fótagerð er slök, sinaskil lítil og liðir grannir, réttleiki um meðallag. Hófar eru drjúg góðir og prúðleiki mikill. Adam gefur taktgott og prýðilega rúmt tölt og brokkið er skrefmikið en frekar ferðlítið. Flest afkvæmin hafa allan gang og skeiðið er öruggt og sniðfast sé það fyrir hendi. Afkvæmin hafa ásækinn og vakandi vilja og allgóðan höfuð- og fótaburð. Adam gefur hálsgrönn og léttbyggð alhliða ganghross með góðan vilja. Adam hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fjórða sætið.

Adam hlaut heiðursverðlaun á LM2011

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar