Landsamband hestamanna Æfingahelgi u-21 árs landslið Íslands tókst vel

  • 24. janúar 2025
  • Fréttir

Landsliðsknapar Íslands ásamt Heklu Katharínu landsliðsþjálfara og þeim Árna Birni og Sylvíu í heimsókn hjá þeim að Kvistum. Ljósmynd: LH

fyrirlestar, heimsóknir og einkatímar

Landsliðshópar Íslands fyrir þetta ár voru tilkynntir í haust, er undirbúningur fyrir Heimsmeistaramót íslenska hestins sem fram fer í Sviss í ágúst því kominn á fullt skrið.

Inn á vef Landssambands hestamanna segir frá æfingahelgi landslið Íslands skipað knöpum 21 árs og yngri. Þar voru línurnar lagðar fyrir komandi keppnistímabil og naut hópurinn góðs af því að fá að vera í frábærri aðstöðu Eldhesta í Hveragerði.

Hekla Katharína landsliðsþjálfari U21 og Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari A-landsliðsins tóku þau í tvo einkatíma á þeim hestum sem knaparnir stefna með á HM í Sviss og voru þau heilt yfir ánægð með standið á hópnum og reyndu að sjálfsögðu að hvetja þau enn frekar til dáða með góðum punktum og hvatningu.

En það þarf ekki bara góðan hest til að ná árangri, það er fleira sem spilar inn í. Perla Ruth Albertsdóttir A-landsliðskona í handbolta kom með fyrirlestur um næringu og hugarfar.
Gríðarlega fræðandi, skemmtilegur og hvetjandi fyrirlestur sem knaparnir fengu og margt sem þau geta tekið með sér úr honum.

Auk fyrirlestra og einkatíma var einnig farið í heimsóknir til A landsliðsknapa.

Jakob Svavar Sigurðsson og Helga Una Björnsdóttir buðu hópinn velkominn að ræktunarbúi og þjálfunarstöð þeirra Fákshólum. Þar lagði Jakob á Landsmótssigurvegarann Skarp frá Kýrholti og gaf hópnum innsýn í þjálfunarstund og áherslur sínar með þennan frábæra gæðing. Öll nálgun Jakobs og Helgu er fagmannleg fram í fingurgóma og ávallt er væntumþykja gagnvart hestinum í forgrunni.

Í heimsókn að Fákshólum hjá Jakobi Svavari Sigurðssyni og Helgu Unu Björnsdóttur. Ljósmynd: LH

Á milli heimsókna á laugardeginum bauð landsliðsþjálfari hópnum heim til sín í Árbæjarhjáleigu 2 þar sem þeirra beið dýrindis kjúklingasúpa svo allir væru vel nærðir fyrir langan dag.

Árni Björn Pálsson og Sylvía Sigurbjörnsdóttir buðu hópinn velkominn að þjálfunarstöð sinni á Kvistum. Þau sögðu hópnum frá upphafi þeirra hestamennsku og þar fylgdu með skemmtilegar sögur frá uppvextinum. Árni Björn lagði á gæðinginn Seðil frá Árbæ og gaf hópnum innsýn í þjálfunarstund og áherslur sínar. Einnig sýndi hann hópnum áherslur með efnilegan skeiðhest sem hann stefnir með í gæðingaskeið. Virkilega skemmtilegt að fá þá innsýn að auki. Árni og Sylvía eru til fyrirmyndar í öllu er viðkemur nálgun þeirra og viðhorfi til hestanna sinna.

Það er ekki sjálfsagt mál að afreksknapar opni dyrnar á þennan hátt og leyfi svona hóp að skyggnast inn fyrir dyrnar og gefa svona mikið af sér. Þetta er að sjálfsögðu ómetanlegt innlegg fyrir U21 árs landsliðshópinn og þökkum við kærlega fyrir höfðinglegar móttökur.
Þessi helgi var veisluborð fyrir metnaðarfullt ungt hestaíþróttafólk. Stemmningin var létt og skemmtileg sem er einmitt ein af forsendum þess að góðir hlutir raungerist.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar