„Ætluðum að vera í eitt ár en nú eru þau orðin átta“

  • 26. september 2021
  • Fréttir
Íslendingar erlendis - Viðtal við Berglindi Rósu Guðmundsdóttur og Daníel Inga Smárason

Íslendingar erlendis er nýr liður á vef Eiðfaxa sem nú hefur göngu sína. Markmiðið er að fá að kynnast íslenskum hestamönnum og hestalífinu erlendis nánar. Daníel Ingi Smárason og Berglind Rósa Guðmundsdóttir eru næst í röðinni en þau eru búsett í Svíþjóð.

 

Daníel Ingi Smárason og Berglind Rósa Guðmundsdóttir fluttu til Svíþjóðar árið 2013 þar sem þau starfa við tamningar, þjálfun, reiðkennslu, hestasölu og ræktun. „Við erum eiginlega í öllu en samt mest að temja og þjálfa. Áður en við fluttum út þá var Danni að starfa við tamningar og ég starfaði sem leikskólakennari,“ segir Berglind en þau fluttu út eftir að Hinrik Þór Sigurðsson og Elísabet Eir Garðarsdóttir buðu þeim að leigja búgarð úti. „Þau höfðu samband við okkur og spurðu hvort við vildum leigja búgarðinn Lunden í Smaland. Okkur fannst það hljóma spennandi að gera eitthvað nýtt og prófa að búa í öðru landi og læra nýtt tungumál,“ segir Daníel og Berglind bætir við „þann 15. september 2013 fórum við með norrænu út. Við ætluðum bara að vera í eitt ár en hér erum við enn. Við búum nú í Gimo en búgarðurinn okkar heitir Lindhof og framtíðarplönin eru að halda áfram að byggja upp okkar fyrirtæki hér í Svíþjóð. Það bendir ekkert til þess að við séum á leiðinni heim.“ Berglind og Daníel eiga þrjú börn þau Almar Orra, 13 ára, Drífu Lind, 6 ára, og Kolbein Nóa, 1 árs. Almar var 5 ára þegar þau fluttu út en bæði Drífa og Kolbeinn eru fædd í Svíþjóð. Ekki öll fjölskyldan er á kafi í hestum. „Drífa Lind hefur mikin áhuga á hestum og er nýbyrjuð í reiðskóla sem er mjög spennandi. Almar fer aðeins á bak en hefur ekki mikinn áhuga og við vitum ekki enn með þann yngsta,“ segir Daníel.

Flestir sem þekkja Daníel Inga vita að hann hefur mikinn áhuga á skeiði og kemur því ekki á óvart að hann var einn af stofnendum passklubben Skeid í Svíþjóð, sem er svipað félag og skeiðfélagið á Íslandi, og héldu þeir nokkra skeiðleika á ári. Fyrr í sumar setti Daníel einnig heimsmet í 250m. skeiði á hryssunni Huldu från Margaretehof. en tíminn er 21,07 sek. Hulda er nú fengin við hesti í okkar eigu, Birni frá Svignaskarði og ríkir mikil eftirvænting eftir því afkvæmi.  Berglind og Daníel hafa verið að fá tvö folöld á ári undanfarin ár. „Við höfum aðeins verið í ræktun og höfum verið að fá 2 folöld á ári. Næsta sumar fáum við fjögur þannig það má segja að ræktunin hjá okkur sé að verða umfangsmeiri. Fyrir utan Huldu þá fáum við undan Brá från Stenbjar en hún er hátt dæmd hryssa sem við leigðum í sumar og svo erum við með mjög góða Keilisdóttir í ræktun, Hildur från Lyckaänget,“ segir Daníel en stóðhestarnir sem þau notuðu í sumar eru Framherji frá Flagbjarnarholti, Björn frá Svignaskarði og Sær frá Ysta-Gerði. „Ég fæ lánaða Védísi frá Jaðri sem pabbi minn á næsta sumar og vonast til að halda henni undir Gangster frá Árgerði,“ bætir Berglind við en þau Daníel eiga engin hross á Íslandi í augnablikinu. Berglind hefur einnig verið að gera það gott á keppnisvellinum m.a. á þeim Sæ frá Ysta-Gerði, Millu från Ammor, Leist från Toftinge og Gimli från Fjalastrop. Til gamans má geta er að hún hefur riðið úrslit á þeim öllum á Sænska meistaramótinu.

En hvernig er Íslandshestamennskan í kringum þau? „Það er minna félagslíf hér en á Íslandi. Hér eru allir mikið bara á sínum bæ og helsta félagslífið er þegar við förum á mót. Þá erum við nokkra daga í burtu og oft myndast skemmtileg stemming þegar allir hittast,“ segir Berglind en það er mikið af íslenskum hestum í þeirra nærumhverfi og nokkuð öflugt mótahald. „Við vonumst til að komast á Landsmót næsta sumar en oft eru mótin hjá okkur ansi nálægt mótinu og þá getur verið erfitt að fara frá bæ. En við vonumst alla veganna til að geta farið að koma aftur heim í heimsókn þar sem það hefur ekki gengið eftir núna á þessum tímum,“ segir Berglind að lokum.

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar