Ævintýralegt ferðalag með fjallkóngnum Kristni Guðnasyni

  • 11. september 2023
  • Fréttir
Heimildarmyndin Konungur fjallanna frumsýnd

Það var þétt setinn bíósalurinn í Bíóhúsinu á Selfossi í gærkvöldi þegar heimildarmyndin Konungur fjallanna var frumsýnd. Myndin sýnir frá ferðalagi fjallkóngsins Kristins Guðnasonar og fjallmönnum í leitum í stórbrotnu landslagi á Landmannaafrétti. Kristinn hefur gengt hlutverki fjallkóngsins í rúma fjóra áratugi en í stöðu fjallkóngs eru valdir menn með leiðtogahæfileika sem eru úrræðagóðir og svo staðkunnugir að þeir geta sagt ókunnugum til um leiðir hvar sem er á afréttinum.

Myndin gefur raunsanna mynd af leitum en hún er afrakstur nokkurra ára vinnu þar sem fjallmönnum var fylgt eftir um króka og kima afréttarins í þremur leitum.

Framleiðendur myndarinnar eru Áslaug Pálsdóttir og Guðrún Hergils Valdimarsdóttir hjá HeklaFilms og leikstjóri er Arnar Þórisson. Þau ávörpuðu frumsýningargesti áður en sýningin hófst.

„Sauðfjárhald er samofið sögu okkar og menningu og sumir segja að íslenska sauðkindin hafi jafnvel haldið lífinu í okkur í gegnum árhundruðin. Á hverju hausti halda bændur til fjalla í þeim tilgangi að smala saman fé sem gengið hefur frjálst á fjöllum sumarlangt. Okkur finnst Konungur fjallanna vera mikilvæg heimild í að sýna þessa ævafornu hefð og erum mjög stolt af þessu verki,“ sagði Guðrún við tilefnið.

Almennar sýningar á myndinni hefjast þriðjudaginn 12. september en myndin er sýnd í Bíóhúsinu Selfossi og Laugarásbíói. Eiðfaxi mælir með að allir skelli sér í bíó.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar