Æviskeið – starfssaga Þorkels Bjarnasonar hrossaræktarráðunautar

  • 2. september 2023
  • Fréttir

Lesandi góður.

Í haust eða vetur er væntanleg eftir mig bók sem ber heitið Æviskeið – starfssaga Þorkels Bjarnasonar.
Þorkell starfaði sem hrossaræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands í 35 ár, frá 1961-1996, og hafði fulla yfirsýn yfir allt hrossaræktarstarf í meira en sextíu ár.

Bókin er byggð á samtölum og hljóðrituðum viðtölum við Þorkel, sem tekin voru á árunum 2003-2006. Þar kemur fram margháttaður fróðleikur um öll helstu kynbótahross sem komu fram á sjónarsviðið á seinni helmingi 20. aldar.

Með ævistarfi sínu lagði Þorkell grundvöll að því ævintýri sem íslensk hrossarækt er löngu orðin, ekki bara á Íslandi heldur um víða veröld. Með ræktendunum og samstarfsmönnum sínum – sem skilmerkilega er fjallað um bókinni – setti hann hásölum hrossaræktarinnar þá traustu hornsteina sem þeir hvíla nú á.

Í Æviskeiði má lesa um feður og mæður, afa og ömmur, áa og eddur þeirra hrossa sem nú geysast um grundir. Æ fleiri þeirra sýna nú tilþrif og vinna afrek í anda draumsýnar og stefnu Þorkels um fagurskapaðan gæðing, auðveldan, geðgóðan og samstarfsfúsan – hinn „flugvakra klárhest“.
Æviskeið er bók í stóru broti, hátt á fjórða hundrað blaðsíður. Bókina prýða um það bil 250 ljósmyndir. Henni fylgja nafna- og myndaskrár, sem auðvelda yfirsýn og tryggja notagildi hennar sem uppflettirits. Vonir eru bundnar við að bókin verði yndislestur flestra hestamanna. Verð bókarinnar til áskrifenda er 12.999 kr.

Erindi mitt er að bjóða þér, sem þetta lest, heiðursáskrift og fá þar með nafn þitt birt á heiðursskrá fremst í bókinni.
Heiðursáskriftin tilkynnist Bjarna Þorkelssyni (bjarnithorkels@gmail.com, s. 844 5758 í skilaboðum á Facebook eða í skráningaformi hér ).

Með bestu kveðju,
Bjarni Þorkelsson.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar