„Áhugamannadeildin hefur gert kraftaverk fyrir hestamennskuna“

  • 3. apríl 2021
  • Fréttir
Ríkharður Flemming Jensen í viðtali

Ríkharður Flemming Jensen varð stigahæsti knapinn í Áhugamannadeild Equsana í vetur og að auki í stigahæsta liði deildarinnar, liði Heimahaga. Það sem gerir árangur Ríkharðs enn merkilegri er sú staðreynd að hann keppti eingöngu á hrossum út fjölskylduræktuninni sem kennd er við Traðarland í Landeyjum.

Útsendari Eiðfaxa heimsótti kappann af þessu tilefni í hesthús fjölskyldunnar á félagssvæði hestamannafélagsins Spretts.

Ríkharður ásamt börnum sínum þeim Sigurði Baldri og Ástu Hólmfríði. Ljósmynd: Eiðfaxi

Ríkharður eða Rikki eins og hann er jafnan kallaður, er menntaður tannsmiður og starfar hjá eigin fyrirtæki, RFJ-tönnum. Hann er giftur Elvu Björk Sigurðardóttur tannlækni og eiga þau börnin Sigurð Baldur sem er rétt að verða 17 ára og dótturina Ástu Hólmfríði sem er nýorðin 13 ára. Bæði börnin stunda hestamennsku af kappi og er Sigurður Baldur í U-21 landsliðinu í hestaíþróttum svo keppnismennskan gengur greinilega í erfðir.

En hverju þakkar Rikki árangurinn í Equsana-deildinni í vetur? „Ég verð fyrst og fremst að þakka hrossunum, þau eru jú grundvöllurinn fyrir þessum árangri og hafa heldur betur reynst mér vel í vetur. Einnig verð ég að þakka félögum mínum í liði Heimahaga fyrir stuðninginn, það var mikil samheldni innan hópsins og góður andi, auk þess sem við vorum með Teit Árnason sem þjálfara liðsins og hann hjálpaði mér alveg helling.“

Lið Heimahaga, stigahæsta liðið í Equsanadeildinni 2021 Ljósmynd Anna Guðmundsdóttir

Rikki segist ekki hafa sett stefnuna fyrirfram á sigur í deildinni. „Ég setti mér vissulega markmið en þau miðuðu að því að vera á meðal tíu efstu knapa og komast í úrslit í einhverjum greinum svo árangurinn er í raun umfram þær væntingar.“ En þó keppnistímabil deildarinnar sé ekki langt, þá liggur mikill undirbúningur þar að baki og huga þarf að andlegu og líkamlegu formi bæði hrossa og knapa. „Ég tók hrossin inn í byrjun október“ segir Rikki. „Það þarf að byrja þjálfunina rólega og skynsamlega, mikil innivinna sem þarf að sinna og reyna að haga þjálfuninni þannig að hrossin séu komin í gott form á réttum tíma.

Hvað sjálfan mig varðar þá reyni ég að fara ca. þrisvar í viku í ræktina, hef stundað Bootcamp í að verða tíu ár og það heldur manni í þokkalegu standi. Ég er nú samt óttalegur sykurkall að eðlisfari en reyni þó að borða þokkalega hollan mat.“

Keppnishrossin sem Rikki notaði í Equsana-deildinni voru eins og fyrr segir öll úr hans ræktun en hver eru þau og hvernig lýsir hann þeim? „Ég mætti í fjórganginn með Ás frá Traðarlandi sem er undan Mídas frá Kaldbak og Ástrós frá Hjallanesi. Þennan hest ræktaði ég ásamt Sigþóri Sigurðssyni pípara. Ás er hestur með ofsalega góðan grunn, ég gerði hins vegar þau mistök að ríða hæga töltið full hratt og var fyrir vikið rétt utan við úrslit. Í fimmgangi keppti ég á Myrkva frá Traðarlandi. Hann er undan Orra frá Þúfu og Lukku frá Traðarlandi, skrefmikill og gríðarlega mikið vakur með mikil tilþrif á tölti, brokki og skeiði. Í slaktaumatölt og tölt mætti ég svo með hana Auðdísi frá Traðarlandi en hún er undan Auð frá Lundum og Óskadís frá Tjarnarlandi. Auðdís er últra gæðingur ef svo má að orði komast, ofboðslega flink og rúm á tölti. Hún hefur aðallega verið keppnishross Sigurðar Baldurs og hann stóð m.a. efstur á henni í tölti í Meistaradeild æskunnar fyrr í vetur en ég hef einnig fengið að grípa í hana við og við.“

Myrkvi frá Traðarlandi.  Ljósmynd Anna Guðmundsdóttir

En hvað stendur upp úr nú þegar Equsana- deildinni er lokið þetta árið? „Það er bara gleði yfir árangrinum sem náðist“ segir Rikki. „Það sem stendur upp úr er að hafa verið í frábæru liði þar sem ríkti góð stemning og allir liðsmenn náu góðum árangri. Ég verð líka að segja að áhugamannadeildin hefur gert kraftaverk fyrir hestamennskuna og áhugafólk sem stunda slíka keppni. Deildin var einnig ofboðslega vel dæmd í vetur, gott samræmi í dómgæslunni og frábærlega staðið að utanumhaldi deildarinnar á allan hátt“ segir Ríkharður Flemming að lokum.

Þrír efstu knapar í einstaklingskeppninni.  Ljósmynd: Anna Guðmundsdóttir

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar