,,Aldrei verið líflegra en núna“ Heimsókn í Sóta á Álftanesi
Hestamannafélagið Sóti var stofnað árið 1989 og er staðsetning þess á Álftanesinu sem áður hét Bessastaðahreppur. Félagið ber nafn sitt af Sóta sem var nafntogaður hestur Gríms Thomsen. Sagan segir að Grímur hafi keypt hann austur í Hornafirði og lét senda hann til Danmerkur þar sem Grímur var við nám, sagt er að Friðrik VII konungur Danmerkur hafi falast mjög eftir hestinum en án árangurs.
Þegar Grímur flutti aftur til landsins kom hann með Sóta með sér og hélt hann á Bessastöðum þar sem hann var heygður með öllum reiðtygjum.
Sóti er því einn af fáum brottfluttum íslenskum hestum sem komið hafa aftur heim en þetta er með öllu óheimilt í dag.
Það má segja að Hestamannafélagið Sóti sé einnig komið aftur heim eftir að áform um að það myndi sameinast Hestamannafélaginu Spretti hafa verið lögð niður.
Nú blómstrar þar allt líf og reiðhallarbygging er nú í vinnslu og stefnt er að því að hún verði risin í haust.
Blaðamaður Eiðfaxa hitti Jörund Jökulsson formann félagsins og spurði hann út í lífið í Sóta.
Myndbandið má sjá í spilaranum hér að ofan.
–