Ályktun frá aðalfundi Félags hrossabænda

  • 13. desember 2021
  • Fréttir

Aðalfundur Félags hrossabænda, haldinn 11. desember 2021, fagnar ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um skipan starfshóps sem fjalla á um starfsemi er varðar blóðtöku úr fylfullum hryssum, regluverkið í kring um hana og eftirlit. Fundurinn vill beina því til ráðherra að jafnframt verði skoðaðir heildarhagsmunir hrossaræktar og hestatengdrar starfsemi við ákvörðun um framtíð blóðtöku úr hryssum.

Greinargerð :

Íslenska hestasamfélagið og samfélag íslenska hestsins á heimsvísu er slegið eftir að myndband frá erlendum dýraverndunarsamtökum var birt í nóvember sl. og ljóst að ímynd íslenska hestsins í upprunalandi sínu hefur beðið hnekki. Sú illa meðferð sem þar kemur fram á fylfullum hryssum er á engan hátt verjandi en að mati fundarins má gera ráð fyrir því að umrætt myndband sé ekki sönn lýsing á almennri meðferð hrossa við blóðtöku í landinu. Engu að síður hefur fundurinn áhyggjur af því að þessi starfsemi eigi ekki samleið með því umfangsmikla starfi sem tengist íslenska hestinum og geti skaðað ásýnd hans og orðspor.

Alþjóðlegt samstarf um íslenska hestinn er afar umgangsmikið og eru FEIF (feif.org) alþjóðleg samtök sem starfa í 22 löndum og telja um 80 þúsund félagsmenn. Hrossarækt og hestamennska er umfangsmikil atvinnugrein hér á landi sem teygir anga sína víða og má þar nefna ræktun og sölu reiðhesta sem nýtast til almennra útreiða, kynbóta og keppni. Útflutningur hefur aukist verulega á síðustu árum og á þessu ári stefnir í að met verði sett í fjölda útfluttra hrossa, eða yfir 3000 hross. Umfangsmikið og markvisst markaðsstarf hefur verið unnið á undanförnum árum undir merkjum Horses of Iceland. Verkefnið er í höndum Íslandsstofu en helstu bakhjarlar þess eru, íslenska ríkið, ýmis félagasamtök um íslenska hestinn, innanlands sem og erlendis, auk margra fyrirtækja sem hafa hagsmuni af þeirri margháttuðu starfsemi sem tengist íslenska hestinum. Hestatengd ferðaþjónusta er jafnframt umfangsmikil atvinnugrein og víða nátengd annars konar ferðaþjónustu. Reiðmennska og hestamennska er kennd í tveimur háskólum og nokkrum framhaldskólum landsins. Fjölda starfsgreina og afleiddra starfa má tengja tilvist íslenska hestsins og að mati fundarins ljóst að miklir og víðtækir hagsmunir eru í húfi.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar