Alli Aðalsteins sjötugur

  • 8. maí 2022
  • Fréttir
Aðalsteinn Aðalsteinsson, tamningamaður og reiðkennari, er sjötugur í dag, 8. maí.

Hann byrjaði að fara á hestbak um það leyti sem hann lærði að ganga og hefur verið hestamaður af lífi og sál allar götur síðan. Hann fæddist á Nesi á Seltjarnarnesi 8. maí 1952 og sleit þar barnsskónum, eða þar til fjölskyldan flutti að Korpúlfsstöðum upp úr 1960. Alli var lengi kenndur við Korpúlfsstaði, þótt hann flytti að heiman tiltölulega ungur.

Þegar senda átti Alla í sveit norður á Raufarhöfn, þar sem engir hestar voru, flúði hann til Þorgeirs í Gufunesi, sem var ekki langt frá, og bað um hæli. Geiri tók við honum og faldi hann á háaloftinu þar til áætlunarbíllinn var farinn af stað norður. Ekki var gert veður úr uppátæki þeirra félaga og var Alli hjá Geira um sumarið og síðan næstu 5-6 árin meira og minna. Var það góður og dýrmætur skóli fyrir ungan hestamann, því Geiri var einn frægasti knapi og hrossaræktandi landsins um þær mundir og hestar hans í fremstu röð á kappreiðum, bæði í stökki og skeiði.

Alli keppti fyrst á kappreiðum á Arnarhamri þegar hann var 10 ára. Þar hleypti hann hrossum frá Geira í stökki og einnig fékk hann að hleypa Nasa gamla í 250 metra skeiði. Þá hafði Nasi verið á brautinni í 15 ár og kominn talsvert á þrítugsaldurinn. Næstu áratugina, eða allar götur síðan væri kannski réttara að segja, var Alli í fremstu röð íslenskra reiðmanna, einkum á stökkhestum til að byrja með, en síðar á kappreiðavekringum og gæðingum. Frægasti stökkhesturinn sem hann hleypti var Þytur frá Hlíðarbergi í Hornafirði, sem var reiðhestur og gæðingur Sveins K. Sveinssonar í Völundi. Áttu þeir marga sæta sigra saman. Það duldist engum að Alli hafði sjötta skilningarvitið þegar hestar voru annars vegar. Talað var um undrabarnið á Korpúlfsstöðum.

Vekringarnir sem Alli hleypti voru margir. Fyrstan skal nefna Óðinn frá Gufunesi en þeir bættu 28 ára Íslandsmet Glettu frá Laugarnesi á vorkappreiðum Fáks 1976. Veturinn 1977 tók hann við Fannari frá Skeiðháholti sem hafði verið helsti keppinautur Óðins árið á undan. Saman áttu þeir Alli og Fannar glæstan feril, sem stóð í nokkur ár. Sumarið ´77 bætti Fannar met Óðins í 250 m skeiðinu um þrjú sekúndubrot og færði það niður í 22,2 sekúndur. Þess má geta að Fannar hljóp 250 m skeiðið á 21,5 sekúndum á kappreiðum á Lagarfljótsbrúnni (trégólf) á Egilsstöðum 1978. Það hlaup var ekki viðurkennt sem met vegna óvenjulegra aðstæðna.

Síðar bættust í hópinn garparnir Villingur frá Möðrufelli og Skjóni frá Móeiðarhvoli. Skjóni var fljótasti vekringur landsins á tímabili, bæði í 250 og 150 m skeiði og setti Íslandsmet í báðum hlaupum, í 250 m skeiði með Albert Jónsson sem knapa, og í 150 m skeiði með Alla í hnakknum.

Með kempurnar Fannar og Skjóna á Vindheimamelum þar sem Skjóni setti Íslandsmet í 150 m skeiði. Ljósmynd: Jón Steingrímsson

 

Aðalsteinn er einn mesti kappi á íslenskum kappreiðavekringum fyrr og síðar. Sem dæmi þá vann hann gullið í 250 m skeiði þrjú Landsmót í röð, sem þá voru haldin með 4 ára millibili, aldrei á sama hestinum. Snilli hans fólst fyrst og fremst í einstöku næmi og innsæi í að komast inn að kviku ólíkra hrossa á augabragði. Hross sem aðrir höndluðu ekki urðu eins og leir í höndum hans.

Færni Alla var þó alls ekki bundin við stökkhesta og vekringa. Allar keppnisgreinar steinlágu fyrir honum, hvort heldur það voru klárhestar, alhliða gæðingar eða töltarar. Upp í hugann koma nöfn hesta: Samber, Safír, Rúbín, Glaumur, Baldur.

Alli var margoft valinn í íslenska landsliðið til keppni á Norðurlanda- og heimsmeistaramótum og einnig hefur hann keppt á NM og HM fyrir önnur lönd. Hann varð Evrópumeistari í 5gangi á Baldri frá Sandhólum á EM1983 í Þýskalandi. Síðasta stóra mótið fyrir Íslands hönd var líklega HM í Danmörku 1989, en þar keppti hann í tölti á Snjalli frá Gerðum og varð í öðru sæti eftir harða og tvísýna keppni við Bernd Vith á Rödi frá Ellenbach.

Til að upplýsa hina yngri knapa um það hver Alli Aðalsteinsson var og er, tók hann sig til 66 ára gamall, eftir 12 ára hlé frá keppni, og keypti vekringinn Tuma frá Borgarhóli. Saman fóru þeir á toppinn í 250 m skeiði og gæðingaskeiði á alþjóðlegum mótum á meginlandinu á árunum 2018 – 2020; fóru meðal annars nokkra spretti í 250 metrum undir 22 sekúndum. Geri aðrir betur.

Til hamingju með stórafmælið þú mikli kappi Aðalsteinn Aðalsteinsson og takk fyrir að lífga upp á tilveru okkar hestamanna með snilli þinni og frískleika í 70 ár.

Kveðja Eiðfaxi

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar