Allir hestamenn velkomnir í Bændasamtök Íslands
Mynd frá búnaðarþingi árið 2025. Ljósmynd: Bændasamtök Íslands
Töluverð umræða hefur skapast meðal hrossaræktenda um aðild að Bændasamtökum Íslands, ekki síst meðal þeirra sem ekki búa á lögbýlum eða eru ekki með hefðbundinn rekstur í kringum sína hrossarækt. Margir telja ferlið flókið og jafnvel fráhrindandi. Í ljósi þess hafði blaðamaður Eiðfaxa samband við Trausta Hjálmarsson, formann Bændasamtaka Íslands, til að fá skýrari mynd af því hverjir geti orðið aðilar að samtökunum, hvernig aðildarferlið virki í raun og hvaða ávinning hrossaræktendur geti haft af því að vera innan samtakanna.
Trausti bendir á að Bændasamtökin séu heildarsamtök íslenskra bænda og hafi það hlutverk að gæta hagsmuna bændastéttarinnar og móta stefnu í málefnum bænda og landbúnaðar í heild. Þar sé meðal annars horft til rekstrarumhverfis, regluverks, umhverfis- og loftlagsmála og unnið að framförum og hagsæld í landbúnaði, auk þess að vera leiðandi í upplýstri umræðu um landbúnaðarmál.
Þá hafi oft heyrst að einungis þeir sem stundi landbúnað í atvinnuskyni geti orðið aðilar að Bændasamtökunum, en Trausti segir það vera misskilning. Samkvæmt samþykktum samtakanna geti bæði einstaklingar og lögaðilar orðið fullgildir félagsmenn, svo fremi að þeir stundi landbúnað, hvort sem það sé í atvinnuskyni eða til eigin nota. Það sé því ekki skilyrði að hrossarækt sé meginstarfsemi eða hluti af rekstri, og geti þeir sem stundi hrossarækt af áhuga orðið fullgildir félagsmenn.
Með fullri aðild fylgi ákveðin réttindi, þar á meðal aðgangur að sjóðum Bændasamtakanna og réttur til að gegna trúnaðarstörfum innan samtakanna. Með því geti félagsmenn tekið virkan þátt í starfi viðkomandi búgreinadeildar, átt möguleika á setu á deildarfundum og verið fulltrúar á Búnaðarþingi, samkvæmt reglum hverju sinni. Fyrir hrossaræktendur þýði þetta jafnframt tækifæri til að hafa bein áhrif á stefnumótun innan hrossaræktarinnar.
Bein áhrif og þátttaka í hrossaræktinni
Trausti nefnir í því samhengi að eitt af hlutverkum Bændasamtakanna sé að skipa í fagráð, þar á meðal fagráð í hrossarækt. Með þátttöku í félagskerfinu geti félagar í búgreinadeild hrossabænda haft áhrif á skipan fagráðsins. Þá velji fagráð hrossaræktar árlega ræktunarbú ársins, og til þess að ræktunarbú geti verið í tilnefningarhópi þurfi að lágmarki einn ræktandi að vera fullgildur félagsmaður í Bændasamtökunum.

Einungis ræktendur sem eru aðilar að Bændasamtökum geta hlotið tilnefningu til ræktenda ársins í hrossarækt
Varðandi félagsgjöldin segir Trausti að meginreglan sé sú að þau byggist á skráðri veltu viðkomandi aðila. Þegar veltan sé engin eða lítil greiði félagsmaður fast árgjald, sem nemi 35.500 krónum. Þannig sé tryggt að þeir sem stundi hrossarækt af áhuga, en ekki í atvinnuskyni, geti engu að síður verið fullgildir meðlimir í Bændasamtökunum og fallið undir búgreinadeild hrossabænda. Með fullri aðild og virkri þátttöku geti slíkir félagsmenn haft bein áhrif á stefnumarkandi ákvarðanir innan hrossaræktarinnar.
Málefni búgreinadeildar hrossabænda séu margvísleg og snerti flesta fleti hrossaræktarinnar. Þar megi meðal annars nefna ræktunarstarf, fagráð, fræðslu og stefnumótun, auk alþjóðlegs samstarfs. Í því samhengi bendir Trausti á að WorldFengur, upprunaættbók íslenska hestsins og fjöregg hrossaræktarinnar, sé sameiginlegt verkefni Bændasamtakanna og FEIF, en tölvukerfið sé í eigu Bændasamtakanna og gegni lykilhlutverki í íslensku ræktunarstarfi.
Að lokum ítrekar Trausti að allt hestafólk sé velkomið í Bændasamtökin. Hann segir einfaldast að setja sig í samband við samtökin og fá aðstoð við skráningu, og leggur áherslu á að þeir sem vilji láta málefni hrossaræktarinnar sig varða eigi greiða leið inn í kerfið.
Að því sögðu óskar hann öllu hestafólki gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með von um áframhaldandi góð samskipti og samstarf á landsmótsári.
Allir hestamenn velkomnir í Bændasamtök Íslands
Árni Svavarsson á Hlemmiskeiði látinn
Fréttatilkynning frá stjórn Suðurlandsdeildar
Styttist í fyrsta mót í Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum