Alþjóðlegur stöðulisti í tölti T1
Á heimasíðu Feif er að finna alþjóðlegan stöðulista ársins í ár byggða á einkunnagjöf í forkeppni alþjóðlegum mótum (WR). Þar eru tvær hæstu einkunnir knapa og hests lagðar saman og meðaltal þeirra raðar þeim niður á stöðulista.
Á næsta ári er framundan Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Sviss og því áhugavert að skoða þessa stöðulista sem gefa fyrirheit um það hvers er að vænta á því móti. Ljóst er þó að við eigum ekki von á því að sjá öll þessi pör á því móti auk þess að fleiri knapar munu leggja meiri metnað og orku í næsta keppnistímabil með heimsmeistaramótið í huga. Við byrjun yfirferð okkar í hringvallargreinum í fullorðinsflokki sem keppt er í á HM.
Tölt T1
Fimm efstu knaparnir á stöðulista í tölti (T1) eru allir Íslendingar og kepptu þeir á mótum á Íslandi að undanskildum Jóhanni R. Skúlasyni sem keppti á meginlandinu. Efstur á stöðulista ársins er Íslandsmeistarinn Árni Björn Pálsson á Kastaníu frá Kvistum. Annar á stöðulistanum er Landsmótssigurvegarinn Jakob Svavar Sigurðsson á Skarpi frá Kýrholti. Þriðji er Jóhann R. Skúlason á Evert frá Slippen. Fjórði er Páll Bragi Hólmarsson og Vísi frá Kagaðarhóli og sá fimmti er Teitur Árnason á Fjalari frá Vakurstöðum
Ríkjandi heimsmeistari í þessari grein er Jóhanna Margrét Snorradóttir á Bárði frá Melabergi. Hún er í landsliðshópi Íslands en Oliver Egli hefur keppt í ár á Bárði og eru þeir í 15 sæti á þessum lista með 8,035 í meðaleinkunn. Af þessum fimm knöpum eru þrír þeirra í landsliðshópi Íslands en það eru þeir Jakob Svavar, Páll Bragi og Teitur Árnason.
Heimildir Eiðfaxa herma að Árni Björn hafi ekki gefið kost á sér í landsliðið að þessu sinni og Jóhann R. Skúlason hefur ekki verið valinn í landsliðshóp Íslands á síðustu misserum.
T1 | |||
# | Knapi | Hestur | Einkunn |
1 | Árni Björn Pálsson | Kastanía frá Kvistum | 8,82 |
2 | Jakob Svavar Sigurðsson | Skarpur frá Kýrholti | 8,635 |
3 | Jóhann R. Skúlason | Evert frá Slippen | 8,615 |
4 | Páll Bragi Hólmarsson | Vísir frá Kagaðarhóli | 8,57 |
5 | Teitur Árnason | Fjalar frá Vakurstöðum | 8,40 |