Eiðfaxi TV Annar þáttur af „Dagur í hestamennsku“

  • 15. nóvember 2025
  • Sjónvarp
Næsti þáttur af „Degi í hestamennsku“ kemur út á sunnudaginn kl 20:00 og fjallar í þetta skiptið um frumtamningar.

Ásta Björk Friðjónsdóttir heimsótti fjölskylduna á Skipaskaga og fékk að fylgjast með frumtamningum.

„Þau eru með mjög skilvirkt og skemmtilegt tamningarsystem. Þessi heimsókn átti sér stað haustið 2024 en það var einmitt það haust sem þau unnu ræktunarbú ársins. Skipaskagi hefur lengi ræktað framúrskarandi hross og því mjög forvitnilegt að skyggnast inn og fylgjast með tilvonandi stjörnum verða til,“ segir Ásta Björk en í þáttunum ræddi hún m.a. við þau Jón Árnason og Sigurveigu Stefánsdóttur ræktendur í Skipaskaga.

Þeim til aðstoðar við tamningarnar voru þeir Jón Þorberg, betur þekktur sem Beggi á Minni Völlum, og Logi Laxdal en sáu þeir um að gera tryppin reiðfær.

„Það var æðislegt að kynnast fjölskyldunni á Skipaskaga og skyggnast inn í þetta spennandi tryppa tímabil sem haustin eru. Þetta er greinilega hestafólk alveg í gegn og þótti mér skemmtilegast að sjá hve sanngjörn tamningin var en þau leggja áherslu á að ætlast ekki til of mikils af þessum ungu hestum til að halda í gleði og forvitni, sem skilar sér greinilega.“

Þátturinn kemur út á Eiðfaxa TV kl. 20:00 á sunnudaginn en íslenskur, enskur og þýskur texti er í boði.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar