Arney, Húni og Klassík verðlaunuð

  • 14. október 2024
  • Fréttir

Ragnar Skúlason og Úlfhildur Ída Helgadóttir eigendur Arneyjar

Fagráðsstefna hrossaræktarinnar

Á fagráðsstefnu hrossaræktarinnar sem fram fór á laugardaginn voru veitt hin ýmsu verðlaun, þar á meðal til þeirra hrossa sem sköruðu fram úr á árinu.

Arney frá Ytra-Álandi, sem er sú hryssa sem hæstu aðaleinkunn hefur hlotið í kynbótadómi fyrr og síðar, hlaut tvenn verðlaun. Knapi hennar Agnar Þór Magnússon hlaut verðlaun sem sá knapi sem sýndi hross í hæstu hæfileikaeinkunn ársins án áverka en Arney hlaut á sýningu á Hólum 9,28 í hæfileikaeinkunn. Þá tóku ræktendur hennar þau Úlfhildur Ída Helgadóttir og Ragnar Skúlason við verðlaunum fyrir það alhliðahross sem hlaut hæstu aðaleinkunn ársins aldursleiðrétta. Aðaleinkunn Arneyjar er 8,98 en aldursleiðrétt hlýtur hún í aðaleinkunn 9,08. Arney er undan Skýr frá Skálakoti og Erlu frá Skák.

Ylva Sól Agnarsdóttir tók við verðlaunum fyrir hönd föður síns, Agnars Þórs. Hjá henni stendur Nanna Jónsdóttir

Þá hlaut Húni frá Ragnheiðarstöðum verðaun sem hæst dæmda klárhross landsins, aldursleiðrétt. Aðaleinkunn hans með aldursleiðréttingu er 8,79. Húni er undan Álfaklettir frá Syðri-Gegnishólum og Hendingu frá Úlfsstöðum. Ræktandi hans er Helgi Jón Harðarson en eigendur eru Gitte Fast Lambertsen og Flemming Fast.

Sú venja er að á fagráðsstefnunni veiti Hrossaræktarsamtök Suðurlands hæst dæmda litförótta hrossi landsins viðurkenningu. Í ár var það Klassík frá Skíðbakka III sem hlaut þau verðlaun. Hún er sex vetra gömul undan Kiljani frá Steinnesi og Úlfhildi frá Skíðabakka III. Ræktendur hennar eru þau Erlendur Árnason og Sara Pesenacker, hlaut Klassík í aðaleinkunn 7,73.

Erlendur Árnason tekur við verðlaunum fyrir Klassík. Hjá honum stendur Ragnhildur Loftsdóttir fyrir hönd Hrossaræktarsamtaka Suðurlands.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar