Andlát Árni Svavarsson á Hlemmiskeiði látinn

  • 17. desember 2025
  • Andlát Fréttir
Jarðsunginn frá Skálholtskirkju fimmtudaginn 18.desember

Árni Svavarsson (f. 4.6.1961 – d. 8.12.2025) hrossaræktandi, bóndi og verktaki að Hlemmiskeiði 3 á Skeiðum er látinn eftir áralanga baráttu við krabbamein. Hann skilur eftir sig eiginkonuna, Ingu Birnu Ingólfsdóttur, og syni sína tvo þá Svavar Jón og Arnar.

Árni var gegnheill hestamaður og félagi, brann af áhuga fyrir hrossarækt og fylgdist með öllu því sem framfór á þeim vettvangi. Það skyldi því engan undra að hann og Inga Birna skildu ná stórgóðum árangri í hrossarækt og úr þeirra smiðju hafa komið margir gullgóðir gæðingar. Hæst ber að nefna Landsmótssigurvegarann í 4.flokki hryssna á LM2012, Pálu frá Hlemmiskeiði 3 (Ae: 8.24) og stórgæðinganna Mjölni frá Hlemmiskeiði 3 (Ae: 8,51), Ronju frá Hlemmiskeiði 3 (Ae: 8.48), Dóru frá Hlemmiskeiði 3 (Ae: 8,45) og Birtu frá Hlemmiskeiði 3 (Ae: 8.42) auk fjölda annara frábærra einstaklinga.

Það er sjónarsviptir af mönnum líkt og Árna sem tóku virkan þátt í framförum á sviði ræktunar íslenska hestsins, átti alltaf stund til að ræða við náungann og tókst á við lífið með brosi á vör.

Starfsfólk Eiðfaxa vottar fjölskyldu og vinum hans innilegrar samúðar, minning um góðan dreng lifir.

Árni verður jarðsunginn frá Skálholtskirkju fimmtudaginn 18.desember klukkan 13:00.

Streymt verður frá athöfninni í beinni hér á vefsíðu Eiðfaxa.

Tekið við verðlaunum fyrir Pálu frá Hlemmiskeiði 3 á Landsmóti árið 2012

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar