Áskell Heiðar ráðinn framkvæmdastjóri LM2026

Framkvæmdanefnd Landsmóts 2026 og framkvæmdastjóri, frá vinstri: Elvar Einarsson, Áskell Heiðar Ásgeirsson, Arna Björg Bjarnadóttir, Stefanía Inga Sigurðardóttir, Sigfús Ingi Sigfússon, Hjörtur Bergstað, Hjörvar Halldórsson og Hallgrímur Ingi Jónsson. Á myndina vantar Bjarna Jónasson.
Þetta verður þriðja Landsmótið sem Áskell Heiðar stýrir, en hann var einnig framkvæmdastjóri Landsmóts á Hólum 2016 og í Reykjavík 2018.
Áskell Heiðar er menntaður landfræðingur frá Háskóla Íslands, með diplómu í opinberri stjórnsýslu frá HÍ og MA gráðu í ferðamálafræði og viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum og Leeds Beckett University. Auk áðurnefndra Landsmóta hefur hann skipulagt fjölda viðburða hérlendis á undanförnum árum eins og tónlistarhátíðina Bræðsluna sem mun fagna tuttugu ára afmæli í sumar. Áskell Heiðar er lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum þar sem hann kennir viðburðastjórnun. Hann mun halda því áfram samhliða skipulagningu Landsmóts.
Löng hefð er fyrir glæsilegum landsmótum hestamanna í Skagafirði. Á Hólum var byggð upp glæsileg aðstaða fyrir landsmótið 2016 á athafnasvæði Háskólans á Hólum þar sem veitt er fagmenntun á sviði reiðmennsku, reiðkennslu, tamninga, og hestahalds, auk þess sem þar eru stundaðar rannsóknir á íslenska hestinum.
Mótið mun verða fyrsta landsmótið sem hestamannafélagið Skagfirðingur heldur alfarið, en með góðum stuðningi frá Skagafirði, Háskólanum á Hólum og íslenska ríkinu.
Skagfirðingur hefur stofnað sérstakt félag sem mun annast rekstur mótsins og þá hefur verið skipuð sérstök framkvæmdanefnd LM26 sem hittist í fyrsta skiptið á Hólum í dag. Í henni sitja; Elvar Einarsson, formaður, Stefanía Inga Sigurðardóttir, gjaldkeri, Bjarni Jónasson, Hallgrímur Ingi Jónsson og Arna Björg Bjarnadóttir frá hestamannafélaginu Skagfirðingi, Hjörtur Bergstað frá Landsambandi hestamanna og Sigfús Ingi Sigfússon og Hjörvar Halldórsson frá sveitarfélaginu Skagafirði.
Búist er við miklum fjölda gesta á landsmótið sem fram fer í júlí 2026. Undirbúningur er þegar hafinn og Elvar Einarsson formaður hestamannafélagsins Skagfirðings segist viss um að mótið verði lyftistöng fyrir hestamennsku á landinu. Áskell Heiðar segir framkvæmdanefndina búa að því að mikil þekking varðandi hestamannamót sé til í Skagafirði og nágrannabyggðum, ekki síst eftir síðasta landsmót á Hólum 2016. Þá hafi verið byggð upp glæsileg aðstaða sem muni nýtast aftur, en auðvitað þurfi að gera einhverjar lagfæringar á bæði völlum og annarri aðstöðu. „Landsmót er mjög skemmtilegt samvinnuverkefni þar sem mjög margir leggja hönd á plóg og það verður mitt stærsta verkefni á næstu mánuðum að virkja þennan mannauð og tryggja það að mótið verði vel heppnaður viðburður þar sem áherslan verður auðvitað á frábæra hesta en einnig á að fólk hittist og eigi saman góðar stundir“ segir Áskell Heiðar.