Áslaug Arna er í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn

  • 25. september 2021
  • Fréttir
Hestamenn í framboði

Í dag er kjördagur. Eiðfaxi hafði samband við nokkra hestamenn sem eru í framboði og fékk þá í smá spjall um stefnumál sín. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er næst en hún leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Hver ert þú og hver er þín saga í hestamennsku?

Ég heiti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. Ég er alin upp í Árbænum og hef verið í hestamennsku frá barnæsku með fjölskyldunni minni, upphaflega í Andvara og svo í Fáki. Ég var mjög ung farin að skottast upp í hesthúsi og fara í reiðtúra, sex ára í mína fyrstu hestaferð og lærði að vera óhrædd og sjálfstæð fljótt. Ég vildi gera þetta sjálf og vera ein á hestbaki. Síðar fór ég að keppa en flest allt var gert í hesthúsinu, þangað fór ég iðulega eftir skóla og eyddi mestum af mínum frítíma. Ég deili þessu áhugamáli núna áfram með pabba mínum og finnst alltaf jafn nauðsynlegt að komast í góða hestaferð á sumrin og reyni að stunda þetta eins og ég get í annan tíma meðfram krefjandi störfum í pólitíkinni. En það jafnast fátt á við að komast á hestbak, hvort sem er til að aftengja sig aðeins eða hreinlega að njóta náttúrunnar og góðs félagsskapar. Svo eru það auðvitað ákveðin forréttindi að geta deilt áhugamáli með foreldri sínu og geta þá sameinað það að verja tíma með fjölskyldunni og að sinna áhugamáli sínu. Það gefur mér mikið.

Hver er ástæðan fyrir því að þú valdir Sjálfstæðisflokkinn?

Ég trúi á frelsi einstaklingsins og á einstaklingsframtakið – þar sem við ýtum undir fólk en heftum það ekki. Ég trúi á samfélag þar sem sköpum fólki tækifæri til að nýta styrkleika sína hvert og eitt. Ef allir fá að blómstra og allir fá tækifæri til að gera sitt besta á hverjum tíma hámörkum við það sem við getum búið til sem samfélag á hverjum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir þessi gildi. Ég vil að fólk fái að njóta þess sem það skapar og að skattheimta sé hófleg og að ríkisrekstur standi fyrst og síðast undir því sem við teljum að ríkið eigi að gera. Að ríkið sé ekki í samkeppni við einkaaðila. Ríkið þarf ekki að veita alla þjónustu og ríkið er alls ekki alltaf besti aðilinn til þess. Þá vil ég að regluverk sé einfalt og ekki hamlandi. Við eigum að treysta fólki. Allt þetta rúmast vel innan Sjálfstæðisstefnunnar og varð til þess að ég gekk til liðs við flokkinn á sínum tíma.

Hvað kom til að þú fórst í framboð fyrst?

Ég vildi sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn treysti ungu fólki, ég hafði metnað til að bæta samfélagið og að fjölbreyttari hópar fólks kæmu að ákvörðunartöku í samfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn stóð undir því, treystir ungu fólki betur en allir aðrir og ég hef getað látið gott af mér leiða og fæ svo góða hvatningu frá fullt af fólki sem hefur trú á mér og hefur staðið við bakið á mér síðan ég fór fyrst út í pólitík.

Hvernig er búið að ganga í kosningabaráttunni?

Það hefur gengið vel í baráttunni. Ég hef átt samtöl við þúsundir kjósenda í kosningabaráttunni. Við finnum það alls staðar sem við komum að við erum velkomin, fólk er jákvætt og vill hlusta á það sem við höfum fram að færa. Það er alltaf gaman í kosningabaráttu og ákveðin stemning sem skapast. Ég fæ mikið út úr því að eiga þessi samtöl við fólk og er bara nokkuð bjartsýn á að við munum ná góðum árangri. En það er ljóst að við þurfum á hverju atkvæði að halda og það er mikið undir.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ísland er svo sann­ar­lega land tæki­fær­anna en ekk­ert af þessu ger­ist af sjálfu sér. Í þess­um raun­veru­leika þarf að hafa skýra sýn á framtíðina, skiln­ing á því hvernig hag­kerfið virk­ar og þekk­ingu á því mik­il­væga hlut­verki sem felst í því að veita þjóðinni for­ystu. Það skipt­ir máli. Við vilj­um stefna lengra, gera bet­ur í dag en í gær og tryggja hag okk­ar og framtíðarkyn­slóða sem best. Það ger­um við ekki með því að draga upp ranga mynd af stöðu mála eða tala með óá­byrg­um hætti um stjórn­mál eða efna­hags­mál – held­ur með því að sýna ábyrgð og festu og nýta þau tæki­færi sem fyr­ir okk­ur liggja, eins og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn boðar. Við höf­um tæki­færi til þess að sýna það í verki í kjör­klef­an­um þegar við göng­um til kosn­inga. Við trú­um því að Ísland sé land tæki­fær­anna og und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins ætl­um að nýta þau tæki­færi.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar