Átta milljónir til þriggja aðila

  • 27. febrúar 2025
  • Fréttir
Úthlutun styrkja til þróunarverkefna búgreina á árinu 2024

Matvælaráðuneytið úthlutaði rúmum 172 milljónum króna til 51 þróunarverkefnis á árinu 2024. Í fyrsta sinn var þróunarféi úthlutað til hrossaræktar og var það samtals 8.000.000 kr.

Þrjú verkefni í hrossarækt

Af þessum 51 þróunarverkefni eru þrjú í hrossarækt, 23 í sauðfjárrækt, 16 í nautgriparækt og níu í garðyrkju. Verkefni í garðyrkjunni fengu samtals rúmlega 58,5 milljónir, verkefni innan nautgriparæktar fengu samtals rúmar 47,5 milljónir og verkefni í sauðfjárrækt samtals rúmlega 58,2 milljónir.

Háskólinn á Hólum hlaut styrki fyrir tvö verkefni. Annars vegar 4.000.000 til rannsókna á áhrifum hreyfingar og umhverfis á atgervi unghrossa og hins vegar 2.000.000 fyrir þróun á  fræðslugátt og eflingu rannsókna tengdum íslenska hestinum.

Tilraunastöð Háskóla Íslands hlaut 2.000.000 til áframhaldandi þróunar og rannsókna á sumarexemi í íslenskum hrossum.

Á vef stjórnarráðsins er að finna heildarlista af þeim sem fengu úthlutun og þar kemur jafnframt fram; „Fagráð búgreina sem starfa samkvæmt búnaðarlögum leggja faglegt mat á umsóknir og eru meðmæli þeirra forsenda styrkveitinga ráðuneytisins. Fagráð setja sér verklagsreglur um mat á umsóknum um þróunarfé.“

Heildarframlög að lágmarki átta milljónir árlega

Stofnverndarsjóður íslenska hestsins var lagður niður í lok árs 2024 og í stað Stofnverndarsjóðs munu þeir sem vinna að þróunar- og rannsóknaverkefnum tengdum hrossarækt geta leitað í þróunarfé búgreina en undir þann stuðning falla einnig nautgriparækt og sauðfjárrækt.

Samkvæmt nýsamþykktri reglugerð nr. 1006/2024 munu heildarframlög til þróunarverkefna í hrossarækt vera að lágmarki 8 milljónir króna árlega.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar