Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum „Besti sprettur sem ég hef náð á Kastori í gæðingaskeiði“

  • 1. apríl 2024
  • Fréttir
Viðtal við Konráð Val Sveinsson

Konráð Valur Sveinsson á Kastori frá Garðshorni á Þelamörk sigraði keppni í gæðingaskeiði í Meistaradeild Líflands á laugardaginn. Heildarúrslit í gæðingaskeiði má skoða með því að smella hér.

Aðstæður á Brávöllum á Selfossi voru ekki þær ákjósanlegustu en mikið rok gerði keppendum erfitt fyrir. „Meðvindur hjálpar nú oft í skeiðgreinum við það að ná góðum tímum en þetta var fullmikið af því góða. Sérstaklega fyrir þá knapa sem eru með óhörnuð hross. Á mótsstað að þá gleymir maður að hugsa út í það að manni sé kalt, einbeitingin er öll á hestinum og því sem framundan er. Þegar mótið er svo búið áttar maður sig á því að maður er kaldur inn að beini.“

Heildareinkunn þeirra Konráðs og Kastors var 8,21 en seinni sprettur þeirra var sérstaklega framúrskarandi enda einkunn fyrir hann 8,50.  „Kastor er algjör gæðingur. Geðslagið í honum er einstakt og skeiðgetan mögnuð. Þá sýnir það gæðin að hann getur tekið þátt með frábærum árangri í öllum skeiðgreinum og hefur auk þess háan kynbótadóm og gert það gott í A-flokki. Fyrri spretturinn hjá okkur tókst vel en sá seinni var besti sprettur sem ég hef náð á honum í gæðingaskeiði.“

Lokamótið í Meistaradeildinni fer fram föstudagskvöldið 12. apríl í HorseDay höllinni og á laugardeginum 13. apríl er svo Stóðhestaveislan. „Ég hlakka mjög til lokamótsins og Stóðhestaveislunnar. Ég býst sterklega við því að mæta með Kastor í skeiðið í gegnum höllina. Liðið mitt, Top Reiter, er frábærlega samsett með yfirburðarknapa og hestakost og við munum gera okkar besta á lokamótinu,“ segir Konráð Valur að lokum.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar