Blóðmerabúskapur

  • 24. nóvember 2021
  • Fréttir

Myndin tengist greininni ekki.

Aðsend grein frá Sveinbirni Sveinbjörnssyni

„Ég get ekki neitað því að eftir að hafa horft á myndina af blóðmerunum sem útlendingarnir tóku hef ég verið talsvert hugsi og ýmsar spurningar vaknað. Ég hef í framhaldi reynt að kynna mér þessa búgrein og þá komið ýmislegt í ljós sem mér var með öllu ókunnugt um. Þannig hafði ég talið að blóðið væri nýtt til lyfjaframleiðslu fyrir menn en hið rétta mun vera að það sé brúkað til að auka frjósemi svína, ef mér skjátlast ekki. Þá hafði ég fráleitt gert mér grein fyrir því hversu mikil búgrein þetta væri orðin eða réttara sagt hversu þörf er á mörgum hryssum fyrir hana. Mun staða mála nú vera þannig að sé miðað við að fjöldi hrossa á Íslandi sé rúmlega 60.000 má reikna með að allt að fjórðungur af fullorðnum hryssum sé nýttur í þessa starfssemi. Og aukning er stöðug þannig að etv. er ekki langt í að helmingur af fullorðnum hryssum á Íslandi verði brúkaður í framleiðslu á blóði með folaldakjöt sem auka afurð. Þangað stefnir sem sé ísl hrossarækt enda eftir miklu að slægjast. Góð landkynning sem mætti gera mun meira úr en hingað til. T.d. með því að laða ferðamenn að blóðtökustöðunum til að sjá atið sem væri góð viðbót við heimsóknir í stóðréttir. Og svo hlýtur Maggi Ben að láta Ísteka og blóðmerabændur setja upp bás á komandi landsmóti þar sem þessi búgrein verður kynnt og mönnum boðið upp á beikon og jafnvel egg. Svona mætti lengi telja.

Er hestamennskan á Íslandi ekki örugglega að stefna í rétta átt?

Og að lokum ein ábending. Væri ekki rétt að skilyrða að blóðtökuhrossin væru nefnd nöfnum sem tengir þau við búgreinina, s.s. Blóðnös, Blóðsuga og stóðhesturinn gæti t.d. verið nefndur Blóðtappi. Færi ekki vel á því? Og svo væri það líka til bóta fyrir þá sem sækjast eftir lifandi gripum úr þessum stóðum.“

Sveinbjörn Sveinbjörnsson eldri
hestamaður í Spretti

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar