Blue Lagoon mótaröðin í beinni á Eiðfaxa í vetur

  • 28. nóvember 2024
  • Fréttir

Jónína Björk Vilhjálmsdóttir, formaður Spretts, Sigurbjörn Eiríksson, stjórnarmaður í Spretti, og Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Eiðfaxa.

Sýnt verður beint frá mótaröðinni í vetur í opinni dagskrá.

Í gær var undirritaður samningur milli Eiðfaxa og hestamannafélagsins Spretts um að Eiðfaxi TV sjái um beinar útsendingar í opinni dagskrá frá Blue Lagoon mótaröðinni í vetur.

Deildin er orðin vel þekkt og beðið eftir með eftirvæntingu ungra knapa á hverju ári en knapar sem mæta til leiks koma víðsvegar af landinu. Þetta er einstaklingskeppni í barna- og unglingaflokki en eitt keppniskvöldið býður upp á pollaflokk. „Þetta eru krakkar sem eru kannski ekki komin í lið í Meistaradeild æskunnar. Þetta er svið fyrir þau sem vilja æfa sig í að taka þátt í innanhús mótaröð en hægt er keppa í stökum greinum eða á öllum mótunum,“ segir Jónína Björk Vilhjálmsdóttir formaður Spretts við undirritun samningsins.

„Þetta er ein stærsta innanhús mótaröð á Íslandi í dag en hefur fengið minni athygli. Það er kominn tími á það að þessir krakkar fái að sjá sjálfan sig á skjánum. Mótaröðin styður unga knapa við að stíga sín fyrstu skref í keppni og að vaxa inn í keppnishestamennskuna því er þetta mikilvæg deild varðandi nýliðun á keppnisbrautinni. Heildarfjöldi skráninga á Blue Lagoon í fyrra voru tæplega 300 talsins en sigurvegarar í hverri grein fara heim með veglegan farandgrip sem hannaður er af Sign. Það að fá að taka þátt í deild sem er sjónvörpuð er risa skref fyrir þessa krakka. Við hlökkum til og vonandi fáum við sem flesta knapa til að taka þátt í Blue Lagoon mótaröðinni í vetur.“

Það er því með miklu stolti sem við hjá Eiðfaxa kynnum það að við munum gera Blue Lagoon mótaröðinni góð skil á komandi tímabili.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar