Bósi frá Húsavík á leið til Danmerkur

  • 8. október 2021
  • Fréttir
Hæst dæmdi vindótti stóðhesturinn á leið úr landi

Bósi frá Húsavík er á leiðinni til Danmerkur í næstu viku en hann er hæst dæmdi vindótti stóðhestur í heimi. Bósi er undan Glym frá Innri-Skeljabrekku og Dúsu frá Húsavík sem er undan Ypsilon frá Holtsmúla 1 og Birnu frá Húsavík. Bósi var ræktaður af Vigni Sigurólasyni.

Bósi hlaut 8,54 í aðaleinkunn, 8,61 fyrir hæfileika og 8,43 fyrir sköpulag. Hann hefur verið farsæll keppnishestur í ungmennaflokki en hann og knapi hans Thelma Dögg Tómasdóttir hafa átt góðu gengi að fagna í fimmgangi og slaktaumatölti. „Ég byrjaði með Bósa fyrir 4 árum og ég eignaðist hlut í honum árið 2019. Þetta er einn alskemmtilegasti og kurteisasti stóðhestur sem ég hef kynnst. Við Bósi stefndum á að komast á Heimsmeistaramót í ár en það fór eins og það fór útaf covid. Það verður mjög erfitt að sjá eftir honum en ég vona að hann eigi eftir að veita nýjum eigendum jafn mikla gleði eins og hann hefur veitt mér,“ segir Thelma í samtali við Eiðfaxa. Nýr eigandi er Rebekka Rye Petersen en hesturinn fer til að byrja með í þjálfun hjá Julie Christiansen.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar