Landsamband hestamanna Breytingar á mótamálum og mótahaldi

  • 19. desember 2024
  • Tilkynning

Á vef LH er að finna frétt þar sem fjallað er um þau mál sem tekinn voru fyrir á landsþingi LH er tengjast mótahaldi

Varðandi Íslandsmótin, þá var þar samþykkt að þeim skuli úthlutað með þriggja ára fyrirvara. Búið er að loka fyrir umsóknir vegna móta 2025, 2026 og 2027 en auglýst verður eftir umsóknum um Íslandsmót 2028 í vor.

Samþykkt var að stofna starfshóp sem vinni tillögu um framkvæmd Íslandsmóta og annarra móta. Hópurinn kynni drög að tillögum á formannafundi 2025 sem verði lögð fyrir landsþing 2026.

Þá var samþykkt að keppni í gæðingakeppnisgreinum skuli vera á Íslandsmóti barna- og unglinga og því verða krýndir Íslandsmeistarar í gæðingakeppni í þessum flokkum á mótinu.

Áhugamannamót Íslands fékk rýmri ramma um flokkaskiptingar og reglur um þátttöku á mótum sem eru til þess fallnar að auka þátttöku á mótinu og gera mótshöldurum léttara fyrir við að halda glæsilegt áhugamannamót.

Innanhúsmót voru einnig rædd og samþykktar voru breytingar á reglugerð um innanhússmót þannig að árangur í öllum hringvallagreinum sem framkvæmdar eru skv. reglum um íþróttakeppni, gildi til stöðulista ársins innanhúss. Til þess að innanhúsgreinar verði samanburðarhæfar til stöðulista á milli móta þurfa þær að vera framkvæmdar á sama hátt alls staðar. Dæmi: Skeið í fimmgangi F1 skal útfært skv. reglum greinarinnar á öllum löglegum innanhússmótum.

Einnig var samþykkt að óheimilt sé að keppa í flugskeiði í gegnum höll í barna- og unglingaflokki. Hafa skal í huga að keppni í flugskeiði gegnum höll er ólögleg grein og telur ekki til stöðulista innanhúss.

Samþykkt var að stjórn LH skuli hefja vinnu við að semja reglur um Íslandsmót innanhúss sem væri mótaröð, ásamt því að semja staðal fyrir aðstæður til löglegrar keppni innanhúss.

Þá var samþykkt að vísa til Sportnefndar FEIF tillögu um hertar reglur varðandi aðstæður við löglegar skeiðkappreiðar.

Einnig var samþykkt að vísa til keppnisnefndar FEIF tillögu um að afskráningarfrestur í úrslitum verði 2 klst. í stað 1 klst. og er það í meðförum nefndarinnar. Ef knapi ætlar að afskrá í úrslitum þarf hann að gera það a.m.k. 2 klst. fyrir fyrstu úrslit (b-úrslit) í greininni.

Þá var samþykkt var að vísa til keppnisnefndar að endurskoða reglur um spjaldanotkun í keppni. Sportnefnd FEIF hefur þegar hafið þessa vinnu.

Þeir sem vilja kynna sér aðrar samþykktir Landsþings geta nálgast þær hér: Landsþing | Landssamband hestamannafélaga

 

 

www.lhhestar.is

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar